Kaupmáttur launa stöðugur

Launavísitalan hækkaði í júlí frá fyrri mánuði. Síðastliðna 12 mánuði hafa laun hækkað um 6,5% og kaupmáttur því aukist lítillega á tímabilinu en verðbólga á sama tímabili var 6,3%. Þrálát verðbólga hefur því ekki bitið sérstaklega í kaupmátt launa síðastliðna 12 mánuði þó aðeins hafi hægt á kaupmáttaraukningu yfir sumarmánuðina.


Hagstofan birti nýlega vísitölur launa, grunnlauna og kaupmáttar launa til og með júlí sl. Vísitala launa hækkaði um 0,2% í júlí frá mánuðinum á undan og vísitala grunnlauna um 0,5%. Vísitala launa miðað við fast verðlag, sem útskýrir þróun kaupmáttar launa, lækkaði hins vegar aðeins á milli mánaða. Kaupmáttur jókst fyrst um sinn eftir gerð nýrra kjarasamninga eins og jafnan, en aðeins tók að hægja á 12 mánaða hækkunartaktinum yfir sumarmánuðina. Á heildina litið hefur kaupmáttur launa þó haldið sjó það sem af er ári en 12 mánaða hækkunartaktur launavísitölu miðað við fast verðlag stóð í 0,25% í júlí.

Ólík þróun eftir launþegahópum

Hagstofa birtir einnig launavísitölu brotna niður á ólíka hópa launþega. Nýjustu tölur í þeim efnum ná fram í maí síðastliðinn. Af tölum maímánaðar er ljóst að starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa hækkað mest í launum undanfarna 12 mánuði. Myndin að neðan sýnir að nokkuð skarpur viðsnúningur varð á árshækkun launa milli launþegahópa en það var um það leyti sem skrifað var undir nýja kjarasamninga fyrir stóran hluta almenna vinnumarkaðarins. Viðsnúningurinn skýrist af því að kjarasamningar meginþorra opinberra starfsmanna losnuðu í byrjun apríl en þá fór árshækkunartaktur launa ríkisstarfsmanna úr því að vera 10,1% í mars niður í 4,4%. Trúlega kemur munur á hækkunartakti ólíkra launþegahópa vinnumarkaðarins til með að minnka þegar áhrif nýjustu kjarasamninga verða sýnileg í gögnum næstu mánaða ásamt því að væntanlega verður gengið frá þeim kjarasamningum sem enn er eftir að lenda.

Kaupmáttur haldið sjó í flestum atvinnugreinum almenna vinnumarkaðarins

Þegar hækkun launavísitölu er skipt niður á ólíkar atvinnugreinar á almennum vinnumarkaði má sjá að laun hafa hækkað mest meðal starfsfólks í flutningum og geymslu en í maí stóð 12 mánaða hækkun launa í greininni í 10,1%. Í þennan flokk fellur til að mynda starfsfólk flugfélaga og rútufyrirtækja. Laun í öðrum greinum ferðaþjónustu eru ekki skammt undan en hækkun þeirra stóð í 9,8% á sama tíma. Í maí voru það aðeins laun starfsfólks í veitustarfsemi og fjármála- og vátryggingastarfsemi sem höfðu ekki haldið í við 12 mánaða takt verðbólgu.

Verulegt launaskrið ekki í kortunum

Kjarasamningar sem skrifað hefur verið undir það sem af er ári hafa verið hóflegir í samanburði við samninga síðustu ára. Til að mynda mældist árshækkun launa mun meiri fyrir ári síðan en hún gerir nú. Þá var árstaktur verðbólgu hins vegar ívið hærri en samt var hækkun vísitölu kaupmáttar launa 2,8% á ársgrundvelli. Aðeins hefur þó dregið úr spennu á vinnumarkaði síðastliðin misseri en atvinnuleysi á árinu hefur verið örlítið yfir atvinnuleysi á sama tímabili í fyrra. Atvinnuleysi hefur að jafnaði verið 3,5% fyrstu 7 mánuði ársins samanborið við 3,3% á fyrstu 7 mánuðum síðasta árs. Mest hefur atvinnuleysið verið á Suðurnesjum á árinu en það má trúlega að hluta rekja til afleiðinga jarðhræringa á svæðinu.

Misvísandi merki má lesa úr hagtölum þessa dagana en hluti þeirra hefur verið endurskoðaður og ný gögn teikna upp töluvert breytta mynd frá því sem áður var líkt og við fjölluðum um nýverið. Kannanir meðal stjórnenda fyrirtækja sýna mikinn mun á spurn eftir vinnuafli eftir atvinnugrein en gefa vísbendingu um betra jafnvægi á vinnumarkaði, líkt og kemur fram í nýlegri umfjöllun okkar. Niðurstöður könnunar Gallup fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins gefa til kynna að spenna á vinnumarkaði muni fara minnkandi. Fyrir ári síðan sögðu tæp 43% svarenda fyrirtæki sitt búa við skort á starfsfólki og hæst fór þetta hlutfall í 54% í vetrarbyrjun 2022. Síðastliðið vor hafði þetta hlutfall hins vegar lækkað í rúm 29% og hefur það ekki verið lægra í þrjú ár. Miðað við þá þróun virðist vera minni hætta á verulegu launaskriði á næstunni þó það sé ekki endanlega úr sögunni.

Með frekari hjöðnun verðbólgu á seinni hluta þessa árs ætti kaupmáttur launa að aukast lítillega. Raungerist sú þróun mun kaupmáttur launa hafa aukist lítillega á árinu þegar það rennur sitt skeið. Við teljum því ekki verulega hættu á mikilli rýrnun kaupmáttar launa á næstunni.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband