Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaupmáttur almennings tekur við sér á ný

Kaupmáttur launa vex nú á nýjan leik samhliða mikilli hækkun launa frá lokafjórðungi síðasta árs og hjaðnandi verðbólgu. Styrking krónu um miðbik síðasta áratugar skýrir að stórum hluta mikinn kaupmáttarvöxt að jafnaði undanfarin 12 ár. Hætta er á að umtalsverð hækkun launa á næstu misserum viðhaldi verðbólgu yfir markmiði Seðlabankans.


Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala í júní um 1,1% frá fyrri mánuði. Skýrist hækkunin væntanlega að stórum hluta af kjarasamningum hluta opinberra starfsmanna sem gerðir voru í júnímánuði. Frá áramótum hafa laun landsmanna að jafnaði hækkað um 4,9% miðað við launavísitölu. Miðað við undanfarna 12 mánuði er hækkunin þó umtalsvert meiri, eða 10,9%, enda gerði þorri launafólks á almennum vinnumarkaði kjarasamninga undir lok síðasta árs sem skiluðu umtalsverðri hækkun launa.

Viðsnúningur hefur orðið í 12 mánaða takti kaupmáttar launa undanfarna mánuði. Mikil verðbólga varð til þess að samdráttur mældist í kaupmætti launa milli ára nánast samfellt frá júní í fyrra fram til maí á þessu ári ef undan er skilinn lokamánuður síðasta árs þegar framangreindar kjarasamningshækkanir á almenna markaðinum komu inn af fullum krafti. Var þó hækkunartaktur launavísitölu talsverður á tímabilinu.

Nú þegar öll kurl eru meira og minna komin til grafar í kjarasamningum ársins og verðbólga er tekin að hjaðna eru laun landsmanna hins vegar að jafnaði farin að duga öllu betur en fyrir ári síðan þegar kemur að kaupum á vörum og þjónustu. Þannig mældist kaupmáttur launa 1,9% meiri í júní síðastliðnum en á sama tíma fyrir ári.

Kaupmátturinn betur varinn en víða erlendis

Þótt verðbólga hafi bitið allfast í buddu landsmanna undanfarin misseri hefur launaþróun hérlendis farið mun lengra með að vega á móti mikilli verðbólgu en raunin er víðast hvar í kring um okkur í því alþjóðlega verðbólguskoti sem geisað hefur. Seðlabankinn birti í maí athyglisverðan samanburð á kaupmáttarþróun hér á landi og erlendis síðustu árin. Kom þar fram að þótt kaupmáttur hefði skroppið lítillega saman hérlendis á síðasta ári var kaupmáttarskerðingin mun meiri bæði austan hafs og vestan. Frá því faraldurinn skall á í byrjun áratugarins fram til síðustu áramóta jókst kaupmáttur launa um að meðaltali 2% á ári hér á landi en til samanburðar dróst hann saman um 1% á ári að jafnaði í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3% í Bandaríkjunum.

Myndarlegur kaupmáttarvöxtur frá árinu 2010

Almennt má segja að til lengri tíma litið ætti að vera samhengi milli framleiðniþróunar vinnuafls, launaþróunar og verðbólgu. Kaupmáttur launa ætti því í grófum dráttum að haldast í hendur við aukna verðmætasköpun á hverja vinnustund og munurinn á þessu tvennu að brjótast út í innlendri verðbólgu. Hefur Seðlabankinn til að mynda oft viðrað þá skoðun að heppilegast sé að hækkun launa í hagkerfinu sé í grennd við verðbólgumarkmið bankans að viðbættum vexti í framleiðni vinnuaflsins. Bankanum hefur hins vegar sjaldnast orðið að þeirri ósk sinni enda hafa laun að jafnaði hækkað um 7% árlega frá árinu 2010.

Á myndinni má sjá hvernig þessar stærðir hafa þróast frá upphafi síðasta áratugar. Í Peningamálum Seðlabankans í maí var birt mat bankans á þróun framleiðni vinnuafls á þessu tímabili og einnig liggur fyrir mat Hagstofu á framleiðninni á sama tíma. Þótt takturinn í mati Seðlabanka og Hagstofu sé mismunandi á einstökum árum er heildarmyndin áþekk. Óx framleiðni vinnuafls um 0,9% á ári að jafnaði samkvæmt Hagstofu en um 0,7% miðað við mat Seðlabankans. Hér er notast við einfalt meðaltal á mati þessara tveggja aðila sem gefur okkur að jafnaði 0,8% framleiðniaukningu vinnuafls síðustu 12 árin. Kaupmáttur launa óx hins vegar um 3,3% árlega að jafnaði á tímabilinu og virðist miðað við þann samanburð sem launþegar geti ágætlega við unað.

Allur gangur er á því hvernig þessar stærðir hafa spilað saman undanfarin 12 ár, enda ýmislegt sem flækir myndina. Til að mynda nutu íslenskir launþegar býsna myndarlegs kaupmáttarvaxtar á árabilinu 2014-2017 þegar verðbólga var meira og minna undir 2,5% markmiði Seðlabankans þrátt fyrir hækkun launa sem var langt umfram framangreinda þumalputtareglu Seðlabankans um framleiðnivöxt að viðbættu verðbólgumarkmiðinu. Ástæðan var fyrst og fremst myndarleg styrking krónu á tímabilinu. Frá ársbyrjun 2014 til ársloka 2016 styrktist krónan um ríflega 30%. Þar við bættist afar lítil verðbólga á alþjóðavísu sem hélt aftur af verði á innfluttum vörum og aðföngum og vó þannig á móti kostnaðarhækkun innanlands vegna hækkunar launa.

Hins vegar virðast einnig vera tímabil frá upphafi síðasta áratugar þar sem allgott samræmi var milli þróunar launakostnaðar og verðbólguþrýstings. Gildir það bæði um fyrstu 4 ár síðasta áratugar, árin 2018-2019 og síðast en ekki síst undanfarin tvö ár. Þá má nefna að árið 2020 var vitaskuld afar óvenjulegt í þessu tilliti þar sem faraldurinn og viðbrögð við honum höfðu mikil áhrif á fjölda vinnustunda og þar með mælda framleiðni.

Með öðrum orðum má færa fyrir því rök að kaupmáttaraukningu umfram framleiðnivöxt undanfarin 12 ár megi að stórum hluta þakka hagfelldri þróun á ytri jöfnuði þjóðarbúsins sem skilaði verulegri styrkingu krónu. Sú þróun skrifast svo aftur að miklu leyti á tilkomu ferðaþjónustu sem þriðjameginstoð undir útflutningstekjur auk farsællar lausnar á uppgjöri við kröfuhafa gömlu bankanna og hagstæðrar alþjóðlegrar verðlagsþróunar. Slíkur búhnykkur er hins vegar tæpast í kortunum á komandi misserum og því teljum við að meira samræmi verði milli þróunar framleiðni og kaupmáttar á komandi tíð en var til dæmis um miðjan síðasta áratug.

Horfur á nokkrum kaupmáttarvexti á næstunni

Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í maílok teiknuðum við upp þá mynd sem okkur þótti líkleg að myndi teiknast upp varðandi þetta samspil næstu misserin. Þar spáðum við því að laun myndu almennt hækka um 9% í ár, um 8% á næsta ári og um 6% árið 2025. Á móti gerðum við ráð fyrir því að verðbólga myndi að jafnaði verða 8,7% í ár, 5,3% á næsta ári og 3,7% árið 2025. Kaupmáttur launa eykst miðað við það að jafnaði um 0,3% í ár, 2,6% árið 2024 og 2,2% árið 2025.

Hjöðnun verðbólgu í spá okkar skýrist að stórum hluta af mun hægari hækkunartakti íbúðaverðs en verið hefur, nokkurri styrkingu krónu á spátímanum og meiri verðstöðugleika erlendis ná komandi fjórðungum. Kostnaðarþrýstingur af hækkun launa verður hins vegar öllu þrálátari verðbólguvaldur gangi spá okkar eftir og á hvað stærstan þátt í því að verðbólga fellur ekki að verðbólgumarkmiði Seðlabankans á seinni hluta spátímans. Heppilegra væri því ef Seðlabankafólki yrði nú loks að ósk sinni og launaþróun næstu missera myndi samrýmast betur verðbólgumarkmiðinu en verið hefur. Það væri líklegt til að skila álíka kaupmáttarþróun við lægra vaxtastig en ella.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband