Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kampavínið flæðir sem aldrei fyrr - er metið frá 2007 í hættu?

Sala á kampavíni hefur tilhneigingu til að aukast í góðæri og dragast saman í niðursveiflu. Því er, að minnsta kosti til gamans, hægt að líta á sölu kampavíns sem vísbendingu um viðhorf almennings um stöðu og horfur í hagkerfinu.


Kampavín er frábrugðið öðru freyðivíni að því leyti að það kemur aðeins frá Champagne-héraðinu í Frakklandi og er framleitt með flóknari aðferð en annað freyðivín. Vínið er því býsna takmörkuð gæði og hátt verð á því í samanburði við annað freyðivín endurspeglar þá staðreynd.

Sala á kampavíni hefur tilhneigingu til að aukast í góðæri og dragast saman í niðursveiflu. Því er, að minnsta kosti til gamans, hægt að líta á sölu kampavíns sem vísbendingu um viðhorf almennings um stöðu og horfur í hagkerfinu.

Fólk er almennt líklegra til að gera sér glaðan dag og splæsa í kampavínsflösku þegar vel árar, en þetta var einmitt raunin árin fyrir efnahagshrun. Á góðærisárinu stóra 2007 seldi ÁTVR um 16 þúsund lítra af kampavíni eða 22.106 flöskur og var það metár í kampavínssölu. Þess skal þó geta að í þessum tölum er hvorki sala veitingastaða né innflutningur einstaklinga.

Í hruninu á seinni helmingi ársins 2008 tók sala á kampavíni skarpa dýfu og var árið 2009 um 50% minni en árið á undan. Lítil kampavínssala var árin 2009-2015 en á þeim tíma var vöxtur einkaneyslu hægur lengst af og Íslendingar héldu almennt að sér höndum í kaupum á hvers kyns munaðarvöru. Aftur tók salan þó við sér 2016 en þá var hagkerfið komið á mikið skrið. Mesta sala kampavíns frá hruni virðist hafa verið árið 2018 þegar um 14.400 lítrar voru seldir í ÁTVR, ekki langt undir metárinu 2007.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að samdráttarskeið sé þegar hafið í íslensku hagkerfi og mætti því gera ráð fyrir að sala þessarar hagsveiflubundnu munaðarvöru muni dragast saman á nýjan leik. Hins vegar hefur sala á kampavíni hjá ÁTVR aukist um 18% það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra. Það lítur því út fyrir að Íslendingar séu hvergi nærri hættir að skála í kampavíni þótt blikur séu á lofti í efnahagslífinu.

Heimilin betur í stakk búin fyrir niðursveiflu

Ólíkt síðustu niðursveiflu í hagkerfinu standa íslensk heimili nú traustari fótum til að takast á við komandi niðursveiflu. Staða heimilanna er sterk og hafa skuldir minnkað mikið frá því sem þær voru í aðdraganda efnahagskreppunnar fyrir áratug. Vegna sterkrar stöðu heimilanna spáum við því að einkaneysla muni halda áfram að vaxa næstu ár, þrátt fyrir að vöxturinn verði hægari en áður. Þessi staða gæti orðið til þess að kampavínssala muni þrátt fyrir allt ekki dragast saman þrátt fyrir niðursveiflu i hagkerfinu.

Í sumar gefast mörg tilefni til að skála í kampavíni og hefur veðrið mestan part verið að leika við landann það sem af er sumri. Þrátt fyrir samdráttartal er útlit fyrir að landinn sé enn nokkuð bjartsýnn að þessu leytinu. Því má búast við því að Íslendingar haldi áfram að skála í kampavíni á næstu misserum og að öllum líkindum í jafnvel meira mæli en góðærisárið 2007.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband