Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Jólin verða dýr í ár

Íslendingar verja að jafnaði talsvert hærri fjárhæðum í mat, drykki og gjafainnkaup í desember en aðra mánuði ársins. Ofan á reikninginn nú í desember mun bætast við verðbólga, sú hækkun sem orðið hefur á hinu ýmsu vörum frá síðustu jólum.


Það ætti ekki að koma á óvart að Íslendingar verja að jafnaði talsvert hærri fjárhæðum í mat, drykki og gjafainnkaup í desember en aðra mánuði ársins. Hin hefðbundnu heimilisfjármál, sem hjá mörgum dansa rétt á núllinu við hver mánaðamót, ganga þá oft ekki upp og jólin eru tekin að láni með tilheyrandi óþægindum og áhættu næstu mánuðina. Þetta er ekkert nýtt. Þó svo jólunum hafi verið fagnað hér á landi í ríflega þúsund ár og líklega enn lengur að heiðnum sið koma þau alltaf jafn mikið á óvart.

Auðvitað er á mörgum heimilum nægt svigrúm fyrir „óvænt“ útgjöld. En hjá flestum hefur mánuður sem þessi áhrif, jafnvel mikil áhrif, á fjárhaginn. Rétt eins og óvæntur gestur sem býður sjálfum sér í heimsókn yfir jólin. Rétt eins og Eddie frændi í Christmas Vacation. En þessi jólin ætlar Eddie að taka með sér alla fjölskylduna, sem við skulum kalla verðbólgu.

Óboðni gesturinn - verðbólgan

Ofan á reikninginn í desember mun bætast við verðbólga, sú hækkun sem orðið hefur á hinu ýmsu vörum frá síðustu jólum. Ársverðbólgan mælist nú 9,4% hér á landi og hún mun án efa auka kostnaðinn sem fylgja mun óbreyttum jólum. Það eru því aðeins tvær lausnir; reyna að draga úr kostnaði við jólin eða taka verðhækkanirnar á sig með tilheyrandi skelli á heimilisbókhaldið.

Algengasti jólamaturinn hér á landi hefur lengi verið hamborgarhryggur og talið að nær 50% landsmanna gæði sér á honum á aðfangadagskvöld. Það eru því ekki góðar fréttir að svínakjöt hefur hækkað um næstum 12% frá síðustu jólum og lambakjöt um 20% sem situr í öðru sæti yfir vinsælustu máltíðina á aðfangadagskvöld. Malt og appelsín er einnig orðið 5% dýrara og jólabjórinn 4%.

Almennt hafa matvörur hækkað 9% frá síðustu jólum. En það er ekki bara maturinn sem er orðinn dýrari, heldur flest annað sem við leyfum okkur að njóta yfir hátíðirnar. Fatnaður og skór á alla fjölskylduna er rúmlega 2% dýrari og jólabækurnar sem mörgum finnst vera ómissandi partur af jólunum kosta 4% meira en í fyrra. Á að skella sér á jólatónleika? Miðar á slíka viðburði hafa hækkað um ríflega 4% frá síðustu jólum.

Samverustundirnar skipta mestu máli

Svona er staðan því miður. Jólin eru alltaf dýr og verða enn dýrari í ár. Það er þó skárri kostur að vera meðvitaður um það fyrr, þó stutt sé í jólin, svo  hægt sé gera ráðstafanir til að sleppa því að steypa sér í of miklar skuldir. Engin ein töfralausn er til en líklega er besta ráðið að neyta minna þessi jólin og einblína frekar á samverustundir með fjölskyldunni, er það ekki annars það sem jólin eiga að snúast um?

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband