Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Jöfnuðurinn í ensku úrvalsdeildinni

Þrátt fyrir að langhæst laun séu greidd í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er launajöfnuður óvíða jafn mikill.


Pistillinn birtist fyrst sem innslag í Vellinum á Símanum sporti.

Meðal leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni fær umtalsvert hærri laun en launahæsti forstjórinn í íslensku viðskiptalífi, eða um 36 milljónir króna á mánuði.

Launin eru langhæst á Englandi og þriðjungi hærri en á Spáni, þar sem meðallaun eru næst hæst, en þar með er auðvitað ekki öll sagan sögð.

Launajöfnuður er nefnilega langmestur á milli liða í ensku úrvalsdeildinni, einkum ef litið er til forskots þeirra sem greiða mest.

Á síðasta tímabili var það Manchester United. En þó meðallaun leikmanna United hafi verið svipuð samanlögðum meðallaunum leikmanna Cardiff, Hudderfield, Burnley, Newcastle og Brighton, er það þó umtalsvert jafnara en á Spáni. Þar eru Lionel Messi og félagar í Barcelona á álíka háum launum og leikmenn 12 launalægstu liðanna þénuðu til samans.

Forskot stóru liðanna á Spáni; Barcelona, Real og Atletico, ætti því samkvæmt þessum mælikvarða að vera nokkuð meira en toppliðanna á Englandi. Atletico, sem er í þriðja sæti á lista þeirra sem hæst launin bjóða, greiðir ríflega tvöfalt hærri laun en það fjórða, Valencia.

Að stóru leyti má rekja þetta til þess að tekjur liða eru mun jafnari á Englandi, einkum þar sem tekjum af sölu sjónvarpsréttar er að mestu dreift jafnt á milli félaganna þar í landi.

En hvaða lið ætli hafi nú hækkað laun leikmanna mest að undanförnu?

Ef við skoðum þau lið sem haldið hafa sæti sínu í úrvalsdeildinni undanfarin þrjú tímabili skera nágrannarnir sitt hvoru megin við Stanley Park sig úr en Everton og Liverpool hafa hækkð launin mest á meðal stóru liðanna á meðan Bournemouth og Burnley hafa gengið harðast fram meðal hinna smærri. Manchester City, Chelsea og Manchester Utd reka lestina í launahækkunum undanfarinna þriggja tímabila, en hafa svo sem borgað feykinóg fram að þessu og greiða þrátt fyrir allt hæst laun allra.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst