Íslandsbanki hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvog FKA er hreyfiaflsverkefni sem stuðlar að jafnara hlutfalli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.


Íslandsbanki hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Íslandsbanki var eini bankinn sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni en hún er til marks um góðan árangur á sviði jafnréttismála. Viðurkenningin er enn ein staðfestingin á virkni og áhrifum jafnréttisstefnu Íslandsbanka sem snertir öll svið bankans, hvort sem horft er til ráðninga í stjórnunarstöður eða launastefnu.

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt á dögunum sína árlegu viðurkenningarathöfn en athöfnin var fyrst haldin árið 2019. Að hreyfiaflsverkefninu standa, auk FKA, dómsmálaráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Í ár er fjöldi viðurkenningarhafa alls 128, þar af eru 90 fyrirtæki, 22 opinberir aðilar og 16 sveitarfélög. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra 253 þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði.

Viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA fylgir tré að gjöf til gróðursetningar í Jafnréttislundi FKA, sem viðurkenningarhafar gróðursetja sjálfir í lundinum. Með því geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að draga úr kolefnisfótspori og jafnframt sýnt stuðning við jafnréttismál með táknrænum hætti. Við val á trjám í lundinn er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að.