Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslenskir neytendur varkárir í vetrarbyrjun

Minnkandi væntingar íslenskra neytenda til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu benda til þess að draga muni úr einkaneysluvexti á komandi misserum. Landsmenn virðast síður hyggja á húsnæðiskaup á næstunni en hins vegar fjölgar þeim sem huga að bifreiðakaupum þessa dagana.


Nýlega birt væntingavísitala Gallup mældist 86,9 stig í október. Vísitalan lækkar um 12,3 stig frá fyrri mánuði og hefur nú verið undir 100 stiga jafnvægisgildinu frá því í júlí í fyrra en jafnvægisgildið markar jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda.

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækka á milli mánaða. Vísitala fyrir væntingar neytenda til næstu 6 mánaða mælist lægst allra undirvísitalnanna í 67,8 stigum. Mat neytenda á núverandi ástandi hefur lækkað um tæp 50 stig frá því að sú vísitala stóð sem hæst fyrir tveimur árum og mælist nú 115,6 stig. Hún er jafnframt eina undirvísitalan sem er yfir 100 stiga jafnvægisgildinu.

Undirvísitalan sem endurspeglar mat neytenda á efnahagslífinu lækkar mest á milli mánaða (-13,7) og mælist 88,4 stig. Þá lækkar vísitalan sem endurspeglar mat neytenda á atvinnuástandi um 10,4 stig og mælist 81 stig. Að undanskildum júní síðastliðnum þegar undirvísitalan mældist 79,4 stig þarf að leita til ársins 2014 til að finna hana í lægri gildum en nú. Það ætti ekki að koma á óvart, en farið er að draga úr spennu á vinnumarkaði og atvinnuleysi hefur þokast upp á við.

Hægasti vöxtur einkaneyslu frá 2013

Talsverð fylgni er á milli þróunar á væntingavísitölunni og einkaneyslu til lengri tíma litið. Í sögulegu samhengi mælist nú vísitalan frekar lág ásamt því að hægt hefur talsvert á vexti einkaneyslu. Á öðrum ársfjórðungi mældist vöxtur einkaneyslu 2,2% og hefur vöxturinn ekki mælst hægari frá árinu 2013. Einnig benda aðrir hagvísar sem tengjast einkaneyslu til þess að hægja muni enn frekar á vexti einkaneyslu á næstu misserum.

Fleiri hyggja á bílakaup en færri húsnæðiskaup

Stórkaupavísitala Gallup mælir hversu líklegir neytendur eru til þess að festa kaup á húsnæði eða bifreið á næstu 6 mánuðum, eða ferðast erlendis á næstu 12 mánuðum. Í síðasta mánuði birti Gallup ársfjórðungslega mælingu á stórkaupavísitölunni. Í heild mældist stórkaupavísitalan 68,1 stig, sem er um þremur stigum hærra en á sama tíma fyrir ári. Í sögulegu samhengi er gildið fremur hátt, frá árinu 2001 hefur vísitalan að meðaltali verið um 60 stig.

Vísitalan sem metur líkur á að einstaklingur ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum mældist 9,8 stig og lækkaði talsvert frá öðrum ársfjórðungi þegar hún mældist 14,2 stig, en þá hafði vísitalan ekki verið hærri frá góðærisárinu mikla árið 2007. Þrátt fyrir þessa lækkun milli ársfjórðunga er vísitalan þó nokkuð há og yfir sögulegu meðaltali. Töldu 88% það frekar eða mjög ólíklegt að þeir myndu ráðast í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum en 6% töldu það líklegt.

Samkvæmt undirvísitölunni um fyrirhuguð bifreiðakaup eru fleiri sem hyggja á bílakaup á þessum ársfjórðungi en verið hefur undanfarið. Vísitalan mælist 27,6 stig og er tveimur stigum hærri en á sama tíma fyrir ári. Hefur undirvísitalan ekki mælst hærri frá árinu 2017.Töldu 15% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum en 75% tölu það mjög eða frekar ólíklegt.

Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða lækkar á milli mælinga, en samt sem áður telja 77% þjóðarinnar líklegt að þeir bregði sér út fyrir landsteinana á komandi 12 mánuðum.

Á heildina litið segir stórkaupavísitalan og undirvísitölur hennar svipaða sögu og væntingavísitalan. Útlit er fyrir að fólk haldi fastar í budduna sína hvað varðar stórkaup eftir mikið vaxtaskeið undanfarin ár og eru horfurnar að hægja fari á vextinum á næstu misserum. Traust fjárhagsstaða flestra heimila mun þó auðvelda þeim að halda nokkurn veginn sínu striki í einkaneyslunni á komandi fjórðungum þrátt fyrir tímabundið bakslag í hagkerfinu.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband