Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslendingar svartsýnir um stöðu efnahagsmála

Væntingavísitalan mælist í sínum lægstu gildum nú í október frá árslokum 2020. Íslensk heimili virðast vera ansi svartsýn um stöðuna í efnahags- og atvinnuhorfum ef marka má könnunina. Væntingarnar geta gefið góða vísbendingu um þróun einkaneyslu og virðist sem vöxtur einkaneyslu muni halda áfram að hægja allhratt á sér á næstunni.


Það er heldur þungt yfir landsmönnum um stöðu í efnahags- og atvinnuhorfum ef marka má nýlega birta Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir októbermánuð. Vísitalan mældist einungis 74,2 stig og lækkar um rúmlega 11 stig frá síðasta mánuði. Vísitalan hefur nú mælst undir 100 stiga jafnvægisgildinu síðan í apríl 2022 en hefur þó ekki mælst svona lág frá því í lok árs 2020, þegar faraldurinn stóð sem hæst.

Allar undirvísitölur lækka á milli mánaða og eru Íslendingar frekar þungir á brún hvað varðar stöðuna í efnahagslífinu. Undirvísitölurnar sem mæla væntingar til atvinnuástandsins og mat á núverandi efnahagsaðstæðum og -horfum vekja sérstaklega athygli okkar. Efnahagslífið, sem er mat á núverandi efnahagsaðstæðum og væntingum til næstu 6 mánaða, mælist nú 39 stig og hefur ekki mælst lægri frá því í lok árs 2020. Það virðist ljóst af þessu að landsmenn eru farnir að finna vel fyrir háu vaxtastigi og mikilli verðbólgu og eru ekki mjög bjartsýnir fyrir næstu mánuði.

Horfur og væntingar til atvinnuástandsins er hins vegar eina undirvísitalan sem mælist yfir jafnvægisgildinu (109,6 stig). Landsmenn virðast því meta stöðuna sem svo að atvinnuástand sé gott og horfurnar næstu mánuði séu einnig allgóðar. Það rímar auðvitað við stöðuna á vinnumarkaði, þar sem vinnumarkaður er spenntur og atvinnuleysi mælist lágt.

Einnig lækka undirvísitölurnar sem mæla núverandi ástand og væntingar næstu 6 mánuði í efnahags og atvinnumálum. Þannig mælist mat á núverandi ástandi 79 stig og væntingar til næstu sex mánaða 71 stig. Lækka báðar mælingarnar talsvert frá fyrri mánuði.

Hvað segja þessar væntingar okkur?

Væntingar landsmanna gefa nokkuð góða vísbendingu um stöðu heimilanna og mælist oft talsverð fylgni á milli Væntingavísitölunnar og þróunar einkaneyslu eins og sést á myndinni hér að neðan. Ef rýnt er í síðustu misseri lækkaði þó Væntingavísitalan hraðar frá sínum hæstu gildum eftir faraldur en vöxtur einkaneyslu. Aðeins meira samræmi virðist nú vera á milli mælinganna tveggja.

 

Væntingavísitalan og aðrir hagvísar styðja þá skoðun okkar að vöxtur einkaneyslu verði umtalsvert hægari á næstunni en verið hefur. Til að mynda hefur kortavelta dregist saman að raunvirði á undanförnum mánuðum. Á fyrri hluta þessa árs mældist vöxtur einkaneyslu 2,5% og þar af var hann einungis 0,5% á öðrum fjórðungi. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáum við því að vöxturinn verði tæplega 2% á árinu í heild. Samhliða hjöðnun verðbólgunnar mun vaxtartakturinn í einkaneyslunni svo aukast jafnt og þétt á næsta og þarnæsta ári samkvæmt spá okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband