Fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs er tvíþætt. Hún felst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra, eða um 18 milljörðum króna, og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra, eða um 16 milljarða króna.
Sambankalán uppá 110 milljónir evra er leitt af Íslandsbanka með þátttöku Landsbankans, Nordea og Eksfin – Eksportfinansiering í Noregi.
Landeldisstöðin verður staðsett í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að endurnýjanlegri orku frá virkjuninni. Stöðin verður byggð í þremur áföngum en jarðvegsframkvæmdir hófust í október 2024. Áætlað er að eftir fyrsta áfanga muni stöðin framleiða um 10 þúsund tonn af slægðum laxi, og fullbyggð muni stöðin ná framleiðsluafköstum upp á 30 þúsund tonn á ári.
Um 100 manns koma til með að starfa í Eldisgarði og verður meirihluti þeirra þekkingarstörf, þar sem rík áhersla verður lögð á sjálfvirkni í stöðinni, auk þess sem stöðin nýtur fulltingis þeirra 120 starfsmanna og sérfræðinga í sem dag starfa hjá Samherja fiskeldi.
Vegna mikils áhuga á verkefninu var ákveðið að auka umfang hlutafjárútgáfunnar og leggja þá grunn að næsta áfanga í uppbyggingu landeldisstöðvarinnar og er ráðgert að henni ljúki á næstu vikum.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Arctic Securities í Osló voru ráðgjafar Samherja fiskeldis í fjármögnunarferlinu.