Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var ráðgjafi Horns IV slhf., („Horn“) framtakssjóðs í rekstri Landsbréfa, við áskrift félagsins að nýju hlutafé í Styrkási að andvirði 3.500.000.000 kr.
Styrkás er nýtt þjónustufyrirtæki sem í dag samanstendur af Skeljungi og Kletti sölu- og þjónustu.
Horn og SKEL fjárfestingafélag hf. („SKEL“) gerðu fyrr á árinu áskriftarsamning að nýju hlutafé í Styrkási. Allir fyrirvarar eru nú uppfylltir og hefur endanlega verið gengið frá viðskiptunum þar sem Horn fjárfestir 3.500 m.kr. í nýju hlutafé fyrir 29,54% eignarhlut í Styrkási.
Markmiðið með hlutafjáraukningunni er að ýta úr vör framtíðarsýn hluthafa um öfluga samstæðu sem hefur styrk til að þjónusta ólík svið atvinnulífsins við þá innviða- og atvinnuvegafjárfestingu sem fram undan er. Styrkás mun þannig byggja ofan á sterkar stoðir samstæðunnar með innri og ytri vexti á sviði orku og efnavöru, tækja og búnaðar, umhverfis, iðnaðar og eignaumsýslu. Í hluthafasamkomulagi er enn fremur kveðið á um markmið hluthafa að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll á Íslandi fyrir árslok 2027.