Íslandsbanki varar við svikasímtölum

Við vörum við svikasímtölum í nafni Íslandsbanka sem hafa verið að berast viðskiptavinum.


Borið hefur á því að óprúttnir aðilar séu að reyna hringja úr fölsuðum íslenskum símanúmerum og segjast vera að hringja frá Íslandsbanka. Það er því tilefni til þess að vera á varðbergi gagnvart svikasímtölum. Símanúmer Íslandsbanka er 440-4000, fáir þú hringingu frá öðru símanúmeri sem segist vera að hringja frá Íslandsbanka skaltu skella á og hringja í aðal símanúmer bankans til að staðfesta að ekki sé um svik að ræða. Svikahrapparnir tala ensku með hreim en þeir virðast bæði reyna að hringja úr erlendum og innlendum símanúmerum. Tilgangur símtalsins er eflaust að reyna að svíkja fé frá viðtakanda símtalsins og er því þörf á að vara við eftirfarandi.

Svikahrapparnir gætu reynt að biðja um aðgang að netbanka þínum, appi eða greiðslukorti. Ekki skal undir neinum kringumstæðum deila auðkennisþáttum eða greiðslukortaupplýsingum. Hafir þú gert það skaltu:

  • Frysta öll greiðslukort í appinu
  • Velja "Meira" niðri í hægra horninu í appinu okkar og ýta þar á tannhjólið. Þar getur þú valið "Skrá út úr öllum tækjum".
  • Hringja strax í 440-4000

Svikahrapparnir gætu reynt að segja að þeir séu að gæta öryggis tölvu eða netbúnaðar þíns og reyna að setja upp yfirtökuforrit að nafni AnyDesk eða álíka forrit líkt og Teamviewer. Ekki undir neinum kringumstæðum skal setja upp slíkan búnað fyrir svikahrappa þar sem tilgangur þess er að taka yfir tölvuna. Hafir þú sett upp yfirtökuforritið þarf að rjúfa nettengingu og taka netbeinirinn úr sambandi.