Íslandsbanki uppfærir sjálfbæran fjármögnunarramma 

Undanfarnar vikur hefur Íslandsbanki unnið að uppfærslu á sjálfbærum fjármögnunarramma bankans. 


Markmið uppfærslunnar er að einfalda rammann og endurspegla auknar kröfur markaðarins. Fjármögnunarramminn er unnin eftir stöðlum ICMA um græna, félagslega og sjálfbæra skuldabréfaútgáfu og var flokkunarreglugerð ESG (e. EU taxonomy) höfð til hliðsjónar. Sem áður byggir ramminn á fjórum stoðum ICMA sem gerir kröfu um skilgreiningu á verkefnaflokkum, stjórnarhætti tengda vali og flokkun verkefna, meðferð fjármuna og skýrslugjöf til fjárfesta. 

Sjálfbær fjármögnunarrammi gerir bankanum kleift að skilgreina með skýrum hætti viðmið um hvað teljast sjálfbær lán í eignasafni bankans. Á móti þessum eignum getur bankinn svo gefið út græn og sjálfbær skuldabréf eða fjármagnað sig með sjálfbærum innlánum. Íslandsbanki gaf fyrst út sjálfbæran ramma árið 2020 en síðan þá hafa viðmið á markaðnum um hvað telst sjálfbært breyst og verið þrengd. Það er því mikilvægt skref fyrir bankann að uppfæra rammann nú og ganga úr skugga um að hann sé í samræmi við skilgreiningar og kröfur fjárfesta. Stefna Íslandsbanka er að vera hreyfiafl til góðra verka og leiðandi á sviði sjálfbærni. Bankinn reynir því eftir bestu getu að aðstoða og hvetja íslensk fyrirtæki í sinni sjálfbærnivegferð. 

Uppfærsla rammans var unnin í samvinnu við sjálfbærnisérfræðinga frá Swedbank. Þá hlaut uppfærður rammi  jákvætt ytra álit frá alþjóðlega úttektaraðilanum Sustainalytics en það er sami aðili og vottaði fyrri ramma bankans árið 2020. 

https://www.islandsbanki.is/is/grein/sjalfbaer-fjarmalarammi