Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki eitt af bestu vörumerkjum landsins

Vörumerki Íslandsbanka er tilnefnt sem það besta á Íslandi í sínum flokki í vali Brandr fyrir árið 2022.


Bankinn er tilnefndur í flokki fyrirtækja á einstaklingsmarkaði með 50 starfsmenn eða fleiri.

Viðurkenningar eru veittar í fjórum flokkum, fyrirtækjamarkaði, einstaklingsmarkaði þar sem starfsmenn eru færri en fimmtíu, einstaklingsmarkaði þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri og svo fyrir besta alþjóðlega vörumerkið á Íslandi.

Tilnefnd í sama flokki og Íslandsbanki eru 66°Norður, Borgarleikhúsið, Krónan, Orkan, Play og Sky Lagoon.

Fram kemur á vef Brandr að með valinu á bestu íslensku vörumerkjunum 2022 vilji Brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu. Valið fer þannig fram að kallað er eftir ábendingum frá bæði almenningi og valnefnd sem skipuð er sérfræðingum úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu. Valnefnd setur svo í kjölfarið fram lista yfir þau vörumerki sem hún metur framúrskarandi.

Bestu vörumerkjunum er síðan veitt viðurkenning, en það verður gert 8. febrúar 2023.