Íslandsbanki hefur tekið ákvörðun um að taka þátt í veitingu brúarlána til fyrirtækja en skrifað var undir samning þess efnis í dag milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka. Brúarlán eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19. Íslenska ríkið mun gangast í ábyrgð fyrir allt að 70% af fjárhæð brúarlána en fyrirtæki þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði.
Nánari upplýsingar verða birtar á vef Íslandsbanka þegar frekari útfærsla liggur fyrir.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
„Það er gott að samningar séu að nást enda mikilvægt að styðja við fyrirtækin í landinu sem eru í erfiðri stöðu. Nú þegar samningur við Seðlabankann er í höfn förum við á fulla ferð að vinna að útfærslu brúarlánanna svo hægt sé að koma til móts við þau fyrirtæki sem uppfylla viðeigandi skilyrði. Við höfum lengi sagt að við viljum vera hreyfiafl í samfélaginu og það er ekki síst á svona krefjandi tímum sem þess er þörf.“