Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki og Reginn hafa undirritað samning um grænt lán

Íslandsbanki og Reginn hafa skrifað undir lán sem fellur að grænni fjármálaumgjörð beggja aðila.


Íslandsbanki var fyrstur íslenskra banka til að skilgreina og birta heildstæðan ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu og Reginn var fyrst íslenskra fasteignafélaga að birta umgjörð um græna fjármögnun. Lánasamningurinn er því hluti af þeirri vegferð sem bæði félögin hafa markað sér og er til merkis um ánægjuleg tímamót.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins undirrituðu samninginn, rafrænt.

Umhverfismál skipa veigamikinn sess í sjálfbærnistefnu Regins. Það er jákvætt að sjá margvíslegan ávinning af grænu vegferð félagsins, þar sem saman fara minni umhverfisáhrif af rekstrinum, lægri rekstrarkostnaður og fjölbreyttari fjármögnun eins og græn bankalán. Í dag er 18% af fjármögnun Regins græn og er markmið félagsins að auka það hlutfall í 50% á næstu 4 árum.

Helgi S. Gunnarsson,
Forstjóri Regins

Íslandsbanki leggur mikinn metnað í að samþætta samfélags- og umhverfisþætti inn í grunnrekstur bankans. Útgáfa sjálfbærs fjármálaramma Íslandsbanka í október síðastliðnum var mikilvægt skref í þá átt að tryggja faglega umgjörð um sjálfbærar lánveitingar bankans. Mikill áhugi og jákvæð viðbrögð viðskiptavina okkar við rammanum eru til marks um að eftirspurn eftir grænum og sjálfbærum lánum sé svo sannarlega til staðar. Nú er komið að því að láta verkin tala og í samstarfi við okkar viðskiptavini verða enn meira hreyfiafl til góðra verka í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Birna Einarsdóttir,
Bankastjóri Íslandabanka