Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hlýtur Kuðunginn

Að sögn dómnefndar hefur Íslandsbanki náð glæsilegum árangri í umhverfismálum og skapað jákvæða hvata til að flýta fyrir fjárfestingu í grænum lausnum.


Íslandsbanki hlaut í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, verðlaunin á Degi umhverfisins sem haldinn er í dag.

Það var einróma niðurstaða dómnefndar að Íslandsbanki skyldi hljóta Kuðunginn í ár fyrir glæsilegan árangur í umhverfismálum á árinu 2020. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að bankinn hafi ekki einungis náð eftirtektarverðum árangri í rekstri heldur einnig skapað jákvæða hvata til þess að flýta fyrir fjárfestingu í grænum lausnum með ábyrgum lánveitingum, fjárfestingum og innkaupum.

Dómnefndin bendir einnig á að Íslandsbanki hafi í sjálfbærnistefnu sinni einsett sér að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda tengdri starfsemi sinni og ráðist í fjölmargar aðgerðir til að ná því fram. Þannig hafði bankinn til að mynda skipulagt fjarvinnu starfsmanna áður en Covid-19 faraldurinn skall á og að kolefnisspor af rekstri bankans hafi dregist saman um 20% á árinu óháð áhrifum faraldursins.

Íslandsbanki var sem kunnugt er fyrstur íslenskra banka til að birta sjálfbæran fjármálaramma og gefa út sjálfbær skuldabréf. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að birting og innleiðing sjálfbærs fjárlagaramma hafi verið mikilvægt framlag bankans á sviði sjálfbærni á árinu, því með grænum útlánum hafi verið dregið úr losun um 5.800 tonn CO2, sem er þrettánfalt kolefnisspor reksturs bankans. Þá er bankanum sérstaklega hrósað fyrir að hafa fyrstur íslenskra banka sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi lána- og eignasafnsins fyrir árið 2040.

 

Þá vekur dómnefndin sérstaka athygli á því hversu mikla áherslu Íslandsbanki hafi lagt á að fá alla starfsmenn með í innleiðingu sjálfbærra áherslna, meðal annars með vinnustofu um sjálfbærni fyrir starfsmenn og tækifæri fyrir alla starfsmenn til að móta stefnu bankans í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  

Listamaðurinn Unndór Egill Jónsson hannaði Kuðunginn í ár en gripurinn er unnin úr kræklóttu íslensku birki og hnotu og sýnir á glettinn hátt samspil náttúru og iðnaðar og hvernig hjólin fara að snúast, þegar vel tekst til og sambandið er með því móti að hvert styður annað.