Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í fimmta sinn

Jafnvægisvog FKA hreyfiaflsverkefni sem stuðlar að jafnara hlutfalli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.


Íslandsbanki hlaut í gær viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) fimmta árið í röð. Íslandsbanki var eini bankinn sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni en hún er til marks um góðan árangur á sviði jafnréttismála. Viðurkenningin er enn ein staðfestingin á virkni og áhrifum jafnréttisstefnu Íslandsbanka sem snertir öll svið bankans, hvort sem horft er til ráðninga í stjórnunarstöður eða launastefnu, en þar að auki hefur Íslandsbanki stuðlað að aukinni umfjöllun um jafnréttismál með ráðstefnum og fundum.

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í gær stafrænu ráðstefnuna „Við töpum öll á einsleitninni - Jafnrétti er ákvörðun,“ sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum.

Í ár eru viðurkenningahafarnir 89, sem er metfjöldi: 56 fyrirtæki, 11 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar. Á árinu 2023 bættist við 31 nýr þátttakandi í hóp þeirra aðila sem taka þátt í Jafnvægisvoginni. Frá árinu 2020 hafa forsvarsmenn Jafnréttisvogarinnar gróðursett tré í Heiðmörk fyrir hvern viðurkenningarhafa og verða því gróðursett 89 tré í ár, en þá hafa samtals 262 tré verið gróðursett í Jafnréttislundinum svokallaða á síðustu 4 árum.

Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni FKA, forsætisráðuneytisins, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Verkefninu var komið á 2017 og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum

Tilgangurinn er meðal annars að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi að minnsta kosti 40/60.