Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest óbreytt lánshæfismat fyrir Íslandsbanka. Bankinn er metinn í fjárfestingarflokki með einkunnina BBB-/F3 með stöðugum horfum.
Fitch segir að mikið hafi áunnist í rekstri bankans síðasta árið og rekstrarumhverfi batnað töluvert. Bankinn starfi þó í litlu hagkerfi sem sé enn undir gjaldeyrishöftum Fram kemur í rökstuðningi Fitch að eiginfjár- og lausafjárhlutföll séu sterk og að vanskilahlutfallið hafi lækkað milli ára.
Endurskipulagningu á lánasafni sé nú lokið, ennfremur að hverfandi hluti endurskipulagðra lána hafi aftur farið í vanskil. Vanskilahlutfall Íslandsbanka við árslok var 2,2% samanborið við 3,5% árið á undan. Þessi árangur setur bankann í flokk þeirra 25% evrópskra banka sem hafa hvað lægst vanskilahlutföll.
Ennfremur tiltaka þeir að lausafjárhlutföll og vogunarhlutfall séu vel í samanburði við sambærilegar erlendar fjármálastofnanir og bankinn sé vel í undirbúinn fyrir losun fjármagnshafta sem stefnt er að á næstu misserum.
Aukin áhættusækni í útlánum hér og erlendis, tilslakanir í lausafjárstýringu bankans og alvarleg áföll í rekstrarumhverfi hans sem gætu haft áhrif á gæði lánasafns gætu eins verið til lækkunar á lánshæfismati bankans.
Það sem gæti komið til hækkunar á lánshæfismati bankans væri áframhaldandi ábyrg stefna í útlánum, batnandi gæði lánasafns og nægt laust fé. Eins að mál tengd gjaldeyrishengju og afléttingu hafta verði leyst farsællega og stöðugleiki verði í rekstrarumhverfi bankans í framhaldi af því.