Helstu niðurstöður
Árslok 2014
- Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 22,8 ma. kr. árið 2014 samanborið við 23,1 ma. kr. árið 2013.
- Arðsemi eftir skatta var 12,8% á árinu samanborið við 14,7% árið 2013. Góð afkoma þrátt fyrir hækkun eigin fjár.
- Eiginfjárhlutfall var áfram sterkt eða 29,6% (2013: 28,4%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 26,5% (2013: 25,1%)
- Hreinar vaxtatekjur voru 27,1 ma. kr. (2013 28,4 ma. kr.), sem er lækkun um 4,7% milli ára. Vaxtamunur var 3,0% (2013: 3,4%) og hefur nú náð stigi sem búist er við að haldist til lengri tíma.
- Hreinar þóknanatekjur voru 11,5 ma. kr. á árinu (2013: 10,4 ma. kr.). Hækkunin er 10% á milli ára og má að mestu leyti rekja til viðskiptabankasviðs og dótturfélaga bankans.
- Kostnaðarhlutfall var 57,7% (2013: 58,5%). Bankaskattur og einskiptiskostnaður er undanskilinn við útreikning kostnaðarhlutfalls.
- LPA hlutfall var 5,9% (2013: 8%) Þær eignir sem enn eru í endurskipulagningu eru hlutfallslega litlar og mun hver um sig hafa lítil áhrif á hlutfallið. Hlutfall vanskila umfram 90 daga var 2,5% (2013: 4%).
- Heildareignir voru 911ma. kr. (2013: 866 ma. kr.).
4F14
- Hagnaður eftir skatta á 4. ársfjórðungi var 4,6 ma. kr. (4F13: 7,7 ma. kr.).
- Arðsemi eiginfjár var 9,9% á fjórðungnum (4F13: 19,5%).
- Hreinar vaxtatekjur voru 6,5 ma. kr. (4F13: 6,5 ma. kr.).
- Hreinar þóknanatekjur voru 3,0 ma. kr. (4F13: 2,8 ma. kr.) sem er 4% hækkun.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
Árið 2014 var gott ár í rekstri Íslandsbanka. Við höfum unnið markvisst að því að styrkja grunnreksturinn með kostnaðaraðhaldi og tekjuvexti. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað árangri en kostnaður af reglulegri starfsemi lækkaði um 2% milli ára, sem er um 4% raunlækkun. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til eru sameiningar útibúa, endurnýjun samninga við birgja auk þess sem starfsmönnum hefur fækkað um 240 frá nóvember 2011.
Góður árangur hefur náðst í að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans og er hann nú stærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa hér á landi. Íslandsbanki gaf út, fyrstur íslenskra banka, skuldabréf í evrum og stækkaði einnig útgáfu sína í sænskum krónum.
Traust staða Íslandsbanka hefur vakið athygli erlendis en bæði Euromoney og The Banker völdu hann besta bankann á Íslandi. Þá var enginn hærri á bankamarkaði en Íslandsbanki í Íslensku ánægjuvoginni. Þessi meðbyr hefur skilað sér í aukinni markaðshlutdeild bankans. Á árinu var mesti útlánavöxtur frá stofnun bankans en ný lán námu 165 milljörðum króna sem er um 80% aukning frá síðasta ári. Mestu verðmæti hvers fyrirtækis felast í ánægðum viðskiptavinum. Það er markmið okkar að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og við vinnum að því markmiði á hverjum degi.
Fjárfestakynning á Kirkjusandi
Í dag kl. 16.00 munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn fer fram á íslensku og er haldinn í höfuðstöðvum bankans að Kirkjusandi. Boðið verður upp á veitingar.
Skrá mig á fjárfestafund á Kirkjusandi.
Símafundur á ensku
Einnig er markaðsaðilum boðið upp á símafund kl. 14.00 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila 2 tímum fyrir fundinn.
Öll gögn má nálgast á vef fjárfestatengsla, www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.
Hér má sjá myndband þar sem Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka segir frá uppgjörinu:
- Nánari upplýsingar:
- ÍSB Ársreikningur 2014
- ÍSB 2014 Afkomutilkynning
- ÍSB 2014 Fjárfestakynning