Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki birtir skýrslu um kolefnishlutleysi

Íslandsbanki hefur gefið út Kolefnishlutleysisskýrslu (On the road to net-zero) þar sem farið er yfir markmið og árangur bankans á sviði loftslagsmála. Þar kemur meðal annars fram að stefnt sé að samdrætti fjármagnaðs útblásturs, þ.e.a.s. kolefnisspors af lánasafni bankans, um 60% fyrir 2030 og um 85% fyrir árið 2040.


Nýútkomin kolefnishlutleysisskýrsla Íslandsbanka sýnir að markmið um kolefnishlutleysi lánasafns árið 2040 eru verulega metnaðarfull en þó möguleg í flestum atvinnugreinum, þó ljóst sé að orkuskipti í flugsamgöngum og fraktflutningum á sjó muni að öllum líkindum taka lengri tíma. 

Íslandsbanki hafði áður sett sér markmið um að draga úr kolefnisspori af rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024. Þá hefur bankinn kolefnisjafnað reksturinn að fullu með vottuðum einingum frá því árið 2019. Fyrr á árinu birti Íslandsbanki í fyrsta sinn kolefnisspor af lánastarfsemi mælt í samræmi við PCAF aðferðafræðina en þar kom í ljós að útblástur vegna lánasafns á einum degi er álíka mikill og sporið af rekstrinum á heilu ári. Það er því ljóst að tækifærið til þess að vera hreyfiafl í loftlagsmálum hérlendis liggur fyrst og fremst í því að styðja viðskiptavini á sinni vegferð í átt að minni útblæstri.

Íslandsbanki hefur gripið til margvíslegra aðgerða á sviði loftslagsmála og er eini íslenski bankinn sem er stofnfélagi í NZBA, alþjóðlegu samstarfi banka sem stefna að kolefnishlutleysi í starfsemi sinni. Á þeim vettvangi deila bankarnir, sem standa undir 40% af bankastarfsemi í heiminum, reynslu sinni og leiðum til þess að vinna sig í átt að þessu sameiginlega markmiði.

Í þessari nýju skýrslu birtir Íslandsbanki nú markmið um samdrátt fyrir ákveðnaratvinnugreinar og ná þau yfir 61% heildarútlána og 71% heildarlosunar. Þá hefur starfsemi Íslandssjóða, sjóðastýringarfyrirtækis í eigu Íslandsbanka, einnig verið færð inn í mælingu á fjármögnuðum útblæstri  í fyrsta sinn.

Leiðin að kolefnishlutleysi árið 2040 er svo sannarlega ekki auðveld eða að fullu kortlögð. Það er hins vegar ljóst að ef metnaðarfull markmið ríkisstjórnar eiga að nást þarf að taka hugrökk skref og tryggja víðtækt samstarf allra helstu hagaðila innanlands. Íslandsbanki hefur einsett sér að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku atvinnulífi og því viljum við sýna í verki að við séum tilbúin að styðja við okkar viðskiptavini á þeirra vegferð í átt að minni útblæstri.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir,
Forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka