Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki gefur út blá og græn skuldabréf Brims

Skuldabréfin eru fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma.


Íslandsbanki hefur lokið við útgáfu sjálfbærra skuldabréfa Brims sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma félagsins, sem ber bæði grænan og bláan lit. Blá skuldabréf eru undirtegund grænna skuldabréfa og snúa að sjálfbærniverkefnum tengdum hafinu. Skuldabréfin eru fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma.  

Skuldabréfin eru í flokknum BRIM 221026 GB, með lokagjalddaga þann 22. október 2026. Bréfin bera 4,67% vexti sem greiddir eru ársfjórðungslega en höfuðstóll skuldabréfanna er greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga. Heildarstærð skuldabréfaflokksins er samtals 5.000 milljónir króna að nafnverði, en nú hafa verið gefin út skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna. Voru bréfin seld á pari, eða á ávöxtunarkröfunni 4,75%. Samhliða hefur félagið gert skiptasamning til að mæta greiðsluflæði skuldabréfanna, en að teknu tilliti til skiptasamningsins mun vaxtakostnaður félagsins nema 1,8% föstum vöxtum í evru út líftíma skuldabréfsins.