Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki fær hæstu einkunn í UFS mati Reitunar

Frammistaða Íslandsbanka á sviði sjálfbærni heldur áfram að batna í nýju mati Reitunar. Einkunn bankans fyrir umhverfisþætti hækkar um 12,9% milli ára.


Frammistaða Íslandsbanka á sviði sjálfbærni heldur áfram að batna í nýju mati Reitunar. Einkunn bankans fyrir umhverfisþætti hækkar um 12,9% milli ára.

Þrátt fyrir að kröfur hafi aukist milli ára heldur Íslandsbanki hæstu einkunn sem Reitun gefur fyrirtækjum á Íslandi fyrir frammistöðu á sviði sjálfbærni. Bankinn fær alls 90 UFS stig í matinu og einkunnina A3.

Í UFS mati Reitunar er horft til þriggja meginþátta, umhverfis- og félagsþátta, auk stjórnunarhátta. Í matinu fær Íslandsbanki hæstu einkunnina fyrir umhverfisþætti, eða 96 stig af 100 mögulegum, sem er hækkun á milli ára. Í umsögn Reitunar kemur fram að hækkunina megi helst rekja til þess að umhverfisbókhald bankans hafi verið tekið út af löggiltum endurskoðanda, auk þess sem bankinn hafi náð árangri í flokkun úrgangs og losun frá rekstri. Í félagsþáttum stendur bankinn áfram vel að málaflokknum í heild og fær 94 af 100 stigum.

Góður árangur Íslandsbanka í sjálfbærnimati Reitunar endurspeglar vilja bankans til að vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi. Áherslur sjálfbærni eru hluti af öllum verkferlum og vinnulagi í bankanum og mikil vitund meðal bæði starfsfólks og stjórnenda um að gera vel á því sviði. Við látum okkur umhverfið varða og vinnum áfram að markmiði bankans um að ná að fullu kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Birna Einarsdóttir
Bankastjóri Íslandsbanka

Íslandsbanki nær sem fyrr framúrskarandi árangri í UFS áhættumati Reitunar. Bankinn fær áfram A einkunn og er áfram með 90 stig, sem er mesti stigafjöldi sem hingað til hefur verið gefinn í UFS mati Reitunar. Íslandsbanki sinnir sjálfbærnimálum sínum af mikilli ábyrgð og er umgjörð þeirra mála til fyrirmyndar. Bankinn hefur mótað sér skýra stefnu og heldur áfram að ná góðum árangri við innleiðingu hennar inn í verklag og meðal starfsfólks. Við hjá Reitun óskum Íslandsbanka til hamingju með góðan árangur.

Ólafur Ásgeirsson
Framkvæmdastjóri Reitunar