Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki eflir verðbréfamiðlun bankans

Verðbréfamiðlun og Verðbréfaráðgjöf Íslandsbanka sameinaðar í eina deild undir stjórn Ellerts Hlöðverssonar.


Ellert Hlöðversson hefur verið ráðinn forstöðumaður nýrrar deildar Verðbréfamiðlunar hjá Íslandsbanka. Samhliða voru gerðar skipulagsbreytingar þar sem Verðbréfamiðlun og Verðbréfaráðgjöf Íslandsbanka voru sameinaðar í eina deild með það að markmiði að styrkja enn frekar stöðu bankans í verðbréfaviðskiptum. Verðbréfamiðlun hefur sinnt þörfum stofnanafjárfesta og fagfjárfesta á markaði á meðan Verðbréfaráðgjöf hefur einbeitt sér að þörfum einstaklinga. Með sameiningu deildanna skapast tækifæri til að efla enn frekar sókn bankans í verðbréfaviðskiptum en bankinn var með hæstu hlutdeild í veltu í hlutabréfum á fyrstu sex mánuðum ársins í Kauphöll Íslands og næstmesta hlutdeild í veltu með skuldabréf á sama tímabili. Ingvar Arnarson, sem gegnt hefur stöðu forstöðumanns Verðbréfamiðlunar, verður áfram hluti af sameinuðu teymi. 

Ellert Hlöðversson starfaði áður sem verkefnastjóri í Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann hefur m.a. leitt útboð og skráningu fjölda fyrirtækja í kauphöll og komið að flestum útgáfum fyrirtækjaskuldabréfa sem bankinn hefur haft umsjón með á undanförnum árum. Ellert er með M.Sc próf í verkfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Íslandsbanka í 12 ár.