Íslandsbanki hefur haft til skoðunar áhrif dóms Hæstaréttar sem kveðinn var upp 14. október 2025 á vöruframboð bankans þegar kemur að húsnæðislánum til einstaklinga. Mikil vinna hefur átt sér stað innan bankans við að meta að hvaða marki þörf sé á að breyta vöruframboði bankans í kjölfar dómsins og breytingar á lánavörum verið mótaðar.
Óverðtryggð húsnæðislán með fasta vexti áfram í boði
Íslandsbanki mun halda áfram að bjóða óverðtryggð húsnæðislán með fasta vexti til þriggja og fimm ára. Eftir að fastvaxtatímabili lýkur mun lántaka bjóðast endurfjármögnun á markaðskjörum skv. vaxtatöflu Íslandsbanka án uppgreiðslugjalds. Taki lántaki ekki tilboði um endurfjármögnun taka við breytilegir vextir sem miðast við stýrivexti Seðlabanka Íslands (meginvexti Seðlabanka Íslands) að viðbættu álagi. Nánari upplýsingar um kjör má finna á vef bankans. Lántaki er upplýstur um þessa nýju vexti 30 dögum áður en þeir taka gildi og getur á þeim tíma endurfjármagnað án uppgreiðslugjalds.
Tímabundið hlé gert á veitingu verðtryggðra húsnæðislána á föstum vöxtum
Þá hyggst bankinn halda áfram að bjóða verðtryggð húsnæðislán til einstaklinga með föstum vöxtum en mun gera tímabundið hlé á slíkum lánveitingum. Ríkisstjórnin kynnti í gær viðbragð vegna dómsins sem felur það í sér að í samráði við Seðlabanka Íslands verði hafið eins fljótt og auðið er birting vaxtaviðmiðs sem getur legið til grundvallar verðtryggðum lánum. Bankinn telur því rétt að gera hlé á veitingu verðtryggðra húsnæðislána til einstaklinga með föstum vöxtum svo unnt sé að taka það viðbragð með inn í mótun á uppfærðu vöruframboði slíkra lána.
Áður hafði bankinn tilkynnt að gert yrði hlé á veitingu verðtryggðra húsnæðislána til einstaklinga með breytilegum vöxtum.
Íslandsbanki mun jafnframt gera á hlé á veitingu óverðtryggðra húsnæðislána til einstaklinga með breytilegum vöxtum. Stefnt er að því að kynna nýtt lánsform fyrir slík húsnæðislán á næstu vikum.
Íslandsbanki býður lántökum sem eru með óverðtryggð húsnæðislán upp á fastar greiðslur sem henta lántökum sem vilja lækka greiðslubyrði tímabundið í háu vaxtastigi. Nánar hér
Vakin er sérstök athygli á því að þessar breytingar ná aðeins til nýrra húsnæðislána til einstaklinga og hafa ekki áhrif á einstaklinga sem þegar eru með húsnæðislán hjá bankanum.
