Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki besti bankinn að mati Euromoney

Íslandsbanki hefur verið valinn besti bankinn á Íslandi af alþjóðlega fjármálatímaritinu Euromoney. Þetta er fjórða árið í röð sem bankinn hlýtur viðurkenninguna.


Íslandsbanki hefur verið valinn besti bankinn á Íslandi af alþjóðlega fjármálatímaritinu Euromoney. Þetta er fjórða árið í röð sem bankinn hlýtur viðurkenninguna.

Í niðurstöðu dómnefndar var horft til góðs árangurs í rekstri bankans og stefnu hans almennt. Þá var einnig litið til framtíðarsýnar Íslandsbanka um að veita bestu bankaþjónustu á Íslandi og árangurs í nýsköpun með það að markmiði að einfalda bankaviðskipti. Ánægja viðskiptavina Íslandsbanka hefur mælst mikil og hefur bankinn hlotið hæstu einkunn banka í Íslensku ánægjuvoginni undanfarin þrjú ár.

Euromoney útnefnir árlega bestu bankana í tæplega 100 löndum og veitir þeim viðurkenninguna Awards for Excellence.

Íslandsbanki kynnti framtíðarsýn bankans um að veita bestu bankaþjónustu á Íslandi fyrir viðskiptavinum sínum á síðasta ári. Fjölmargar nýjungar hafa verið kynntar til að einfalda bankaviðskiptin. Má þar nefna Kass, nýtt greiðslumiðlunarapp, sem hefur fengið góðar móttökur og rafrænt greiðslumat vegna húsnæðislána sem sparar viðskiptavinum sporin í bankann. Samhliða þessari stafrænu vegferð hefur bankinn fellt niður lántökugjöld hjá fyrstu kaupendum fasteigna og vill þannig koma til móts við þann hóp sem fer sífellt stækkandi.

Viðskiptavinir Íslandsbanka nýta sér app bankans í auknum mæli og eru virkir notendur nú um 50.000 talsins.

Hagnaður bankans árið 2015 nam 20,6 milljörðum krónum og var arðsemi eigin fjár 10,8%. Vel hefur gengið að einfalda í rekstri en í lok árs 2016 verða útibú bankans 14 talsins. Bankinn hefur verið virkur í skuldabréfaútgáfu í erlendri mynt og hefur lánshæfismat bankans verið sett á jákvæðar horfur frá Standard & Poor´s.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
„Það er okkur mikill heiður að fá viðurkenningu frá Euromoney. Starfsfólk Íslandsbanka vinnur eftir þeirri sýn að veita bestu bankaþjónustu á Íslandi. Ég er því afar stolt af árangrinum sem við höfum náð á undanförnum árum. Við erum að fara í gegnum tímabil breytinga í bankaþjónustu þar sem viðskiptavinir vilja fá sérfræðiþekkingu en jafnframt eiga flest sín viðskipti í gegnum tölvu og síma. Við vinnum því hörðum höndum að því að koma til móts við nýjar og breyttar kröfur viðskiptavina og veita þeim þá þjónustu sem þeir þurfa. Ég er afar stolt af árangrinum sem við höfum náð á undanförnum árum og við lítum björtum augum á þá spennandi tíma sem framundan eru.”