Drift EA er kraftmikil miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar, þar sem samfélag og aðstaða skapa frjósaman jarðveg fyrir hugmyndir til að þroskast og vaxa. Með því að styðja starfsemina sýnir Íslandsbanki skýran vilja til að taka virkan þátt í framtíðaruppbyggingu í gegnum nýsköpun og samfélagslega ábyrgð.
Íslandsbanki í hóp bakhjarla Drift EA til eflingar nýsköpunar á Íslandi
Íslandsbanki hefur gengið til liðs við hóp bakhjarla Drift EA til eflingar nýsköpunar á Íslandi. Með þessu samstarfi styður bankinn við starfsemi Driftar EA og tekur virkan þátt í að styrkja umgjörð frumkvöðlastarfs og skapandi lausna um land allt.
Það skiptir okkur miklu máli að fá trausta og metnaðarfulla bakhjarla með okkur í uppbyggingunni. Samstarfið við Íslandsbanka styrkir innviði frumkvöðlastarfs á svæðinu og gerir okkur kleift að styðja við atvinnulífið, fræðasamfélagið og laða að fólk sem vill taka þátt í að þróa öflugt og framsækið samfélag.
Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Drift EA.
Nýsköpun er lykilþáttur í sókn fyrirtækja til að skapa verðmæti til framtíðar. Við fögnum því innilega að höfuðstaður hins bjarta norðurs eigi Drift EA í sinni heimabyggð til að styðja við frumkvöðla og efla grósku í þeirra starfsemi. Íslandsbanki hefur lengi verið leiðandi meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem keyra áfram hagkerfi landsins og spilar nýsköpunin þar lykilhlutverk. Við hlökkum til að fylgjast með framsæknum hugmyndum sem munu verða að veruleika með Drift EA. Við hjá Íslandsbanka teljum nýsköpun lykilþátt í framtíðarsókn Íslands. Samstarfið við Drift EA er hluti af okkar sýn um að styðja við frumkvöðla og samfélög sem skapa verðmæti og framþróun.
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabanka.
Íslandsbanki og Drift EA fagna samstarfinu og líta svo á að samvinnan marki jákvætt skref í áframhaldandi uppbyggingu nýsköpunar á landsvísu.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá þau Jón Birgi Guðmundsson útibússtjóra á Akureyri, Sesselju Ingibjörgu Barðdal Reynisdóttur, framkvæmdarstjóra Driftar EA og Unu Steinsdóttur framkvæmdastjóra viðskiptabanka, við undirritun samstarfssamningsins.