Íslandsbanki afhenti í dag styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Alls voru veittar 30,5 milljónir króna til fjórtán verkefna. Alls bárust sjóðnum 124 umsóknir um styrki.
Alls hafa verið veittar um 90 milljónir króna á rúmu ári í ýmsa styrki til frumkvöðla. Frumkvöðlasjóðurinn er mikilvægur þáttur í samfélagsstefnu Íslandsbanka en markmið sjóðsins er að hvetja til nýsköpunar og þróunar. Við úthlutun styrkja er horft til frumkvöðlaverkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir. Þau eru Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum.
Sökum aðstæðna í þjóðfélaginu um þessar mundir var tilkynnt um styrkina í ár í gegnum fjarfundabúnað.
Stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka var skipuð Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu og Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.