Íslandsbanki er aðalstyrktaraðili verkefnis um að auka þátttöku kvenna í skimun eftir brjóstakrabbameini. Saman leita Krabbameinsfélagið og Íslandsbanki liðsinnis fyrirtækja til að kaupa sérhæfða stafræna bókunarlausn fyrir Brjóstamiðstöð Landspítala.
Helsta fyrirstaða þátttöku í brjóstaskimun er að konur þurfa sjálfar að panta tíma og talið að ýta megi undir þátttöku með því að einfalda bókunarferlið.
Núna er þátttaka kvenna í skimuninni ekki nema 56% en þyrfti að vera 75% hið minnsta. Mikill munur er á þátttöku kvenna eftir ríkisfangi, en hlutfall þátttöku kvenna með íslenskt ríkisfang er í dag 61% á meðan hlutfall þátttöku kvenna með erlent ríkisfang er ekki nema 18%.
Íslandsbanki kemur til með að leggja til krónu á móti hverri krónu sem safnast.
Til mikils er að vinna því talið er að reglubundin þátttaka kvenna í brjóstaskimun geti lækkað dánartíðni þeirra af völdum brjóstakrabbameina um 40%. Að meðaltali greinast hér á landi 266 konur með brjóstakrabbamein, þar af 138 undir 65 ára.