IS Haf fjárfestir í NP Innovation

Framsækið tæknifyrirtæki með vatnsgæðalausnir fyrir landeldi


IS Haf fjárfestingar hefur komist að samkomulagi um kaup á meirihluta í sænska félaginu NP Innovation AB.  Félagið sem er stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson er með höfuðstöðvar og nýsköpunarsetur í Malmö, Svíþjóð. Jafnframt er það með sölu- og þjónustu skrifstofur í Noregi og á Íslandi. Félagið gegnir lykilhlutverki í ört vaxandi hluta laxeldisiðnaðar, þ.m.t. uppbyggingu landeldis og stórseiðaframleiðslu. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins á Íslandi.

NP Innovation framleiðir búnað sem nýtast við vatnshreinsun og vatnsmeðhöndlun í landeldi og eru helstu framleiðsluvörur félagins eru CO₂ afloftarar, diskasíur og tromlusíur. Helstu viðskiptavinir eru seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldi en NP selur einnig vatnshreinsilausnir til brunnbátaþjónustu, sveitarfélaga og annars iðnaðar.

NP, sem er fjórða fjárfesting IS Haf, hefur náð miklum vexti undanfarin misseri og telur fjárfestingateymi sjóðsins félagið geta náð leiðandi stöðu á heimsvísu í vatnsgæðalausnum fyrir fiskeldi. Fjárfestingin er liður í frekari innri og ytri vaxtaráformum félagsins. Vöxtur tekna félagsins hefur verið um 30% að meðaltali á ári (CAGR) síðustu fjögur árin og námu heildartekjur þess um 2,3 milljörðum króna árið 2024.

Stærsti seljandinn í viðskiptunum er Broodstock Captial, sem er norskt fjárfestingafélag með sérhæfingu í sjávarútvegi og fiskeldi. Broodstock fjárfesti í NP árið 2018 og hefur leitt vöxt félagsins í samvinnu við Nils-Åke Persson, stofnanda þess. Munu þeir, ásamt stofnanda félagsins og lykilstarfsfólki endurfjárfesta í félaginu.

„Viðskiptin marka mikilvæg tímamót fyrir NP og er náttúrulegt næsta skref í vegferð til vaxtar. Með innkomu IS Haf sem kjölfestufjárfestis, munum við enn frekar styrkja stöðu okkar á lykilmörkuðum, hraða vexti félagsins, þar sem NP getur veitt fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboð við landeldi á heimsvísu.“ segir Michael Bäärnhielm, forstjóra NP Innovation AB.

„Veruleg tækifæri liggja í því öfluga forskoti sem NP hefur náð í framþróun vatnsgæðalausna fyrir landeldi. NP hefur á afburða teymi að skipa með sérhæfða þekkingu og hefur alla burði til að vaxa hratt og verða leiðandi í lausnum og þjónustu við landeldi á heimsvísu. Kaup á NP er í samræmi við fjárfestingarstefnu IS Haf og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfull vaxtaráform NP og verðmætasköpun og sjálfbærni í vaxandi grein landeldis. Við hlökkum til samstarfs við aðra hluthafa og stjórnendur í NP og spennandi vegferðar framundan.“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.

„Hreinleiki vatns er lykilforsenda fyrir heilbrigði og gæði fisks í landeldi. NP Innovation hefur víðtæka sérfræðiþekkingu og framúrskarandi lausnir sem styðja við öll stig framleiðslu í landi, frá seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldis á laxi. Meginmarkaðurinn hefur verið Noregur síðustu ár, en félagið hefur verið að stíga skref inn á nýja markaði landfræðilega og í öðrum tegundum sjávarafurða. Við trúum á teymið og stefnu félagsins, og munum styðja við frekari vöxt félagsins.“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf.

„Við fjárfestum í NP árið 2018 og erum mjög stolt af framgangi félagsins og árangri teymisins. Broodstock Capital endurfjárfestir í NP í þessum viðskiptum og mun áfram sitja í stjórn félagsins. Við hlökkum til að styðja við frekari vöxt NP í samvinnu við IS Haf“ Segir Håkon Aglen Fredriksen, meðeigandi Broodstock Capital.

Ráðgjafar kaupanda í viðskiptunum eru Deloitte á Íslandi og í Svíþjóð og ARMA Advisory. Haavind og BBA//Fjeldco eru ráðgjafar seljenda í viðskiptunum.

Um NP Innovation AB

NP var stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson in 2011. Félagið þróar og framleiðir vatnshreinsilausnir fyrir fiskeldi á alþjóðavísu og er með höfuðstöðvar í Malmö, Svíþjóð, en einnig með starfstöðvar á Íslandi og í Noregi. Búnaður NP nýtist við vatnshreinsun og vatnsmeðhöndlun í fiskeldi og eru helstu framleiðsluvörur félagins CO₂ afloftarar (Degassers), diskasíur (Diskfilters) og tromlusíur (Drumfilters). Um 90% af sölu félagsins er til fiskeldis og eru vörur NP lykillausnir fyrir rekstur seiðaeldis, stórseiðaeldis og áframeldis á landi. Einnig nýtast lausnir NP fyrir brunnbáta og affall annars iðnaðar.

Um IS Haf fjárfestingar slhf.

IS Haf er sjóður sem stofnaður var í febrúar 2023 og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn sem er 10 milljarðar að stærð fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Stærstu hluthafar sjóðsins eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum. Í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta IS Haf verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Ráðgjafasamningur er á milli Íslandssjóða og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem í sameiningu vinna að öflun og greiningu fjárfestingatækifæra. 

Um Broodstock Capital

Norskt fjárfestingafélag sem stofnað var árið 2016 og sérhæfir sig í fjárfestingum í sjávarútvegi og fiskeldi. Broodstock Capital er áhrifafjárfestir sem styður við vöxt félaga í gegnum virkt eignarhald og náið samstarf við eigendur og stjórnendur.