Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íbúðaverð þrýstir upp verðbólgutaktinum

Mikil hækkun á íbúðaverði auk hækkunar matvöruverðs skýra stærsta hluta hækkunar neysluverðs í apríl. Verðbólga hefur reynst þrálátari en við væntum þótt horfur séu á hjöðnun verðbólgu eftir því sem líður á árið og líklega verður hún undir 2,5% markmiði Seðlabankans um mitt næsta ár. Íbúðaverð gæti þó sett strik í reikninginn á næstunni en talsverður hiti virðist vera á íbúðamarkaði um þessar mundir.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,7% í apríl samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,6% en var 4,3% í mars. Verðbólga hefur ekki mælst meiri síðan í ársbyrjun 2013. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist einnig 4,6% undanfarna 12 mánuði. Síðustu misseri hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað hægar en fyrrnefnda vísitalan. Íbúðaverðshækkanir eru því farnar að hafa meiri áhrif til hækkunar á vísitölunni en undanfarið.

Mæling aprílmánaðar er talsvert yfir öllum birtum spám. Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er húsnæðisliðurinn sem hækkaði mun meira en við höfðum spáð og virðist sem talsverður hiti sé á húsnæðismarkaðnum um þessar mundir. Auk þess hækkaði matur ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði meira í verði en við væntum.

Íbúðaverð vegur þyngst til hækkunar

Hækkandi íbúðaverð hefur sett svip sinn á þróun VNV síðustu mánuði. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 2,7% á landinu öllu milli mánaða samkvæmt mælingu Hagstofunnar og hefur hækkunin milli mánaða ekki verið meiri síðan í september 2016. Mánaðarhækkunin nú var almenn, hvort sem litið var til höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar.

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur bætt talsvert í 12 mánaða hækkunartakt íbúðaverðs með mælingunni nú. Á landinu öllu hefur íbúðaverð hækkað um 10,6% frá sama tíma í fyrra. Hefur árstakturinn ekki verið hraðari í þrjú ár. Lang hröðust er hækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæði, sem hafa hækkað um ríflega 16% á tímabilinu. Þá hafa fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um tæp 10% og íbúðaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um tæp 8% á sama tíma. Heldur hefur því dregið sundur með höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni upp á síðkastið eftir talsvert hraðari hækkun á síðarnefnda svæðinu að jafnaði árin 2018-2020. Við fjölluðum nýverið um þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og horfur á þeim markaði. Mælingin nú rímar við þá skoðun okkar að heppilegt væri að liðka sem kostur er fyrir framboði nýrra íbúða til þess að minnka hættu á óhóflegri eftirspurnarspennu á þessum markaði.

Alls vó reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, til 0,4% hækkunar á VNV nú í apríl. Þessi liður skýrir því rúman helming hækkunarinnar milli mánaða.

Aðrir liðir til hækkunar á vísitölunni

Á eftir húsnæðisliðnum vógu matar- og drykkjarvörur þyngst til hækkunar í mánuðinum. Liðurinn hækkaði um 1,1% (0,16% í VNV) á milli mánaða og vegur þar hækkun á mjólkurvörum þungt. Helsta ástæðan fyrir því er að Verðlagsnefnd búvara ákvað nýverið að hækka heildsöluverð á mjólk og smjöri umtalsvert vegna kostnaðarhækkana í framleiðslu og hefur það mikil áhrif á mælinguna í mánuðinum.

Það kom okkur á óvart að liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður, sem lækkaði lítillega í útsölunum í mars, hækkaði töluvert í apríl eða um 1,0% (0,06% í VNV). Aðrir liðir sem hækkuðu á milli mánaða voru tómstundir og menning (0,04% í VNV) ásamt öðrum vörum og þjónustu (0,02% í VNV).

Verðbólguhorfur þó ágætar

Þótt verðbólga hafi reynst þrálátri og verðbólgukúfurinn hærri í vetur en við væntum teljum við að verðbólga muni taka að hjaðna eftir sem líður á árið. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,2% hækkun VNV í maí, 0,3% í júní og 0,1% hækkun í júlí. Gangi spáin eftir mun verðbólgan mælast 4,0% í júlí og vera við þolmörk verðbólgumarkmið Seðlabankans. Miðað við bráðabirgða langtímaspá okkar mun verðbólga síga niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans um mitt næsta ár.

Íbúðaverð gæti þó sett strik í reikninginn miðað við mælingu þessa dagana en töluverður hiti virðist vera á íbúðamarkaði um þessar mundir. Á móti vegur styrking krónunnar, sem við teljum líklega á seinni helmingi ársins, og mun koma til með að hjálpa til við að halda aftur af verðlaginu gangi sú spá eftir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband