Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hversu styrkar eru stoðir hagkerfisins?

Traust staða einkageirans og hins opinbera mun reynast dýrmætt veganesti nú þegar þungt högg hefur verið greitt íslensku hagkerfi af Kórónafaraldrinum. Svigrúm til opinberra aðgerða er verulegt og góðar líkur eru á að kaupmáttur og eignastaða flestra heimila rýrni mun minna en raunin var fyrir áratug.


Okkur í Greiningu Íslandsbanka, líkt og mörgum öðrum, hefur undanfarið orðið tíðrætt um að stoðir hagkerfisins séu sterkar, nú þegar Kórónuveirufaraldurinn hefur skollið af fullum þunga á íslensku hagkerfi. Það er því rétt að rýna aðeins í tölurnar og skýra hvað við eigum við með þessari fullyrðingu og hvaða máli þetta skiptir fyrir komandi fjórðunga.

Áratugur afskuldunar að baki

Ólíkt mörgum öðrum vestrænum hagkerfum hefur undanfarinn áratugur verið tímabil afskuldunar í íslensku hagkerfi eftir hraða skuldasöfnun á fyrstu árum aldarinnar. Eins og sjá má af myndinni hefur lækkun skulda ekki einskorðast við einn megingeira heldur hafa bæði opinberir aðilar, heimili og fyrirtæki grynnkað myndarlega á skuldum sínum.

Í upphafi áratugarins voru þessir aðilar æði skuldsettir enda hafði fjármálahrunið og fylgifiskar þess farið illa með efnahag flestra innlendra aðila. Skuldir hins opinbera námu til að mynda 110% af vergri landsframleiðslu (VLF) í ársbyrjun 2010, skuldir heimila voru 122% af VLF og skuldir almennra fyrirtækja 214% af VLF. Afskriftir skulda, stöðugleikasamningurinn við kröfuhafa gömlu bankanna, myndarlegur hagvöxtur og ráðdeild innlendra aðila hefur hins vegar orðið til þess að lækka öll þessi hlutföll verulega.

Skuldastaða heimila almennt allgóð

Hvað heimilin varðar hefur hlutfall skulda af landsframleiðslu lækkað um ríflega þriðjung og mældist 76% í septemberlok í fyrra. Langstærstur hluti skulda heimila eru íbúðalán og endurspeglar því þessi þróun að mestu leyti betri hreina eignastöðu heimilanna í íbúðarhúsnæði sínu. Íslensk heimili eru raunar nokkru betur á vegi stödd en heimili á hinum Norðurlöndunum þessa dagana. Næstbest er staðan í Svíþjóð (88% af VLF) en í Danmörku (125% af VLF) eru heimilin í svipaðri stöðu á þennan kvarða og hin íslensku voru í upphafi áratugarins. Þar í landi hefur mikil skuldsetning heimila raunar verið eitt helsta áhyggjuefni þeirra yfirvalda sem fara með fjármálastöðugleika landsins um alllangt skeið og á hún vafalítið eftir að reynast Dönum óþægur ljár í þúfu við að koma hagkerfi þeirra á skrið að nýju eftir COVID-tímabilið.

Mörg fyrirtæki hafa borð fyrir báru

Enn stórfelldari er skuldalækkun fyrirtækja á undanförnum árum enda endurspeglaði skuldsetningin í lok fyrsta áratugar aldarinnar algerlega ósjálfbæra stöðu sem leysa þurfti úr með stórfelldum afskriftum og endurskipulagningu fyrirtækjageirans að hluta. Skuldir fyrirtækja, að fjármálafyrirtækjum slepptum, námu tvöfaldri landsframleiðslu í byrjun áratugar en hafa ríflega helmingast á þennan kvarða og voru í septemberlok 85% af VLF. Athyglisvert er að þrátt fyrir mikla uppgangstíma í kring um miðjan áratuginn og umfangsmiklar fjárfestingar tengdar ferðaþjónustu beint og óbeint hækkaði hlutfallið einungis lítillega á seinni hluta áratugar. Fyrirtækin hafa því að miklu leyti kosið að hafa borð fyrir báru í fjárfestingum sínum og nýta fremur rekstrarafgang til frekari uppbyggingar en leggjast í stóraukna skuldsetningu þegar leið á hagsveifluna.

Eins og sjá má á myndinni virðast skuldir íslenskra rekstrarfélaga í ágætum takti við nágrannalöndin um þessar mundir. Rétt er þó að halda til haga að slíkur samanburður milli landa hefur minna gildi en samanburður á skuldum heimilanna, enda skiptir bæði máli hversu umfangsmikil fjölþjóðleg fyrirtæki eru í hverju landi og eins er það misjafnt eftir geirum hver ákjósanleg skuldsetning er.

Ríkissjóður í sterkri stöðu

Ríkissjóður hafði þá sérstöðu í síðustu uppsveiflu að vera nánast eini megingeiri hagkerfisins sem nýtti góðærið mikla á upphafsárum aldarinnar til þess að grynna á skuldum sínum. Skuldastaðan versnaði hins vegar hratt í kjölfar fjármálahrunsins og sló langleiðina í að nema heilli landsframleiðslu þegar verst lét. Á yfirstandandi áratug hefur staða ríkissjóðs hins vegar snarbatnað að nýju og var svo komið í lok síðasta árs að beinar peningalegar skuldir ríkissjóðs námu rétt rúmum 30% af landsframleiðslu. Að frádregnum peningalegum eignum var þetta hlutfall raunar 21%.

Eins og sjá má af myndinni er staða Íslands hófleg í alþjóðlegum samanburði hvað þetta varðar. Og það sem meira er: Ýmis lönd hafa ekki nýtt meðvind í hagkerfinu undanfarin ár til þess að laga opinbera skuldastöðu heldur þvert á móti safnað ríkisskuldum. Bandaríkin eru nærtækt dæmi um þetta.

Seðlabankinn hefur djúpa gjaldeyrisvasa

Styrkari staða einka- jafnt sem opinbera geirans endurspeglast einnig í ört batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Þótt keyrt hafi um þverbak eftir útrás bankanna og hraða erlenda skuldasöfnun í upphafi aldar hafði þjóðarbúið löngum skuldað talsvert meira á erlendri grundu en sem nam erlendum eignum. Þessi staða hefur nú snúist við og námu hreinar erlendar eignir íslenska þjóðarbúsins tæplega 23% af VLF um síðustu áramót.

Sterk erlend staða minnkar líkurnar á því að umfangsmikill fjármagnsflótti leiði til mikillar veikingar krónu með tilheyrandi verðbólguskoti og kaupmáttarskerðingu. Ekki er þó síður mikilvægt í því sambandi að gjaldeyrisforði Seðlabankans er býsna myndarlegur þessa dagana og er meginhluti hans þar að auki fjármagnaður í íslenskum krónum. Í lok febrúar síðastliðins átti Seðlabankinn í sarpi sínum jafnvirði 855 ma.kr. (6,2 ma.EUR) og samsvarar það ríflega 28% af VLF. Forsvarsmenn bankans hafa ítrekað lýst því yfir að þeir séu tilbúnir að beita þessum forða til að afstýra snöggum og umfangsmiklum gengishreyfingum sem ekki grundvallist af breytingum á undirliggjandi efnahagsstærðum.

Dýrmætt veganesti fyrir erfiða tíma

Hvað þýðir þetta svo allt saman fyrir komandi tíð?

Jú, í fyrsta lagi eru burðir hins opinbera til þess að leggjast gegn hagsveiflunni með aukinni opinberri fjárfestingu, lækkun opinberra gjalda og öðrum tiltækum ráðum verulegir eftir ráðdeild síðustu ára. Til að setja þessa stöðu í samhengi má nefna að í kynningu ríkisstjórnar á mögulegum opinberum aðgerðum í síðustu viku var talað um að fjárfestingar ríkissjóðs yrðu auknar um þriðjung á næstu þremur árum frá fyrri áætlun. Í fljótu bragði reiknast okkur til að þessi aukning gæti numið 75-80 mö.kr. Verði hún að fullu fjármögnuð með lántöku jafngildir það aukningu á skuldum ríkissjóðs upp á tæp 3% af VLF og skuldahlutfallið yrði þá svipað og það var í árslok 2018. Vitaskuld eiga aðrir þættir eins og minnkandi skatttekjur og aukin útgjöld í bótakerfið einnig eftir að hafa áhrif á stöðuna en mergur málsins er samt sá að svigrúm ríkissjóðs er umtalsvert og lánsfé með ríkisábyrgð fæst þar að auki á hagstæðari kjörum en nokkru sinni fyrr.

Hvað fyrirtækin varðar þýðir hófleg skuldsetning að mun minni hætta en ella er á því að erfiðleikar í þeim geirum sem fyrst verða fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins leiði til almennra greiðsluerfiðleika og gjaldþrotahrinu í fyrirtækjaflórunni í heild. Af því leiðir þá einnig að stjórnvöld og fjármálakerfi eiga hægara um vik að beina úrræðum og aðstoð þangað sem þörfin er brýnust næsta kastið.

Síðast en alls ekki síst er svigrúm flestra heimila til þess að mæta tímabundnum atvinnumissi og tekjutapi umtalsvert. Þar við bætist að mun minni hætta er á því að hrein eign þeirra í íbúðarhúsnæði sínu gufi upp en var fyrir áratug síðan. Bæði hefur hlutfall verðtryggðra lána lækkað nokkuð og eins teljum við að því séu takmörk sett hvað krónan muni falla mikið á komandi vikum og mánuðum vegna þess hversu sterk erlend staða þjóðarbúsins er og gjaldeyrisvasar Seðlabankans djúpir. Verðbólguskot vegna gengisfalls verður því að öllum líkindum talsvert hóflegra og heggur minna í eignastöðu og kaupmátt almennings en var fyrir áratug síðan.

Það er orðið ljóst að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir verulegri áraun og margir munu verða fyrir umtalsverðum búsifjum á komandi fjórðungum. Sá lærdómur sem dreginn var af óförum síðasta áratugar og sú ráðdeild sem heimili, fyrirtæki og hið opinbera hafa sýnt mun þó reynast okkur afar dýrmætt veganesti inn í þessa erfiðleika og að mati okkar létta róðurinn umtalsvert við að takast á við þá og koma hjólum hagkerfisins á góðan snúning á nýjan leik í kjölfarið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband