Mikil óvissa um fjölgun ferðamanna litar spágerð
Bati ferðaþjónustunnar skiptir miklu máli fyrir hagþróun komandi fjórðunga enda er greinin stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar. Fjölgun starfa og vöxtur í útflutningstekjum til skemmri tíma litið er því nátengt þróuninni innan greinarinnar.
Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar spáum við því að u.þ.b. 600 þúsund ferðamenn sæki landið heim á þessu ári. Þegar hafa 337 þúsund ferðamenn heimsótt Ísland á fyrstu 8 mánuðum ársins og gerum við því ráð fyrir 260 þúsund ferðamönnum á lokaþriðjungi ársins. Gangi spá okkar eftir yrði fjöldi þeirra innan við þriðjungur af fjöldanum árið 2019.
Á næsta ári gerum við ráð fyrir tæplega 1,3 milljón ferðamönnum sem jafngildir ríflega tvöföldun ferðamanna á milli ára. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir 15% fjölgun milli ára og tæpum 1,5 milljónum ferðamanna árið 2023.
Veruleg óvissa er hins vegar um upptaktinn í komum ferðamanna hingað til lands. Við gerðum því einnig fráviksspár þar sem lagðar eru til grundvallar ýmist svartsýnni eða bjartsýnni forsendur en í grunnspánni. Forsendurnar, ásamt spánum sjálfum, er að finna í viðauka aftan við þjóðhagsspá okkar. Fjöldi ferðamanna gæti reynst á bilinu 560 þúsund – 700 þúsund á þessu ári og á bilinu 900 þúsund – 1,5 milljónir á því næsta miðað við fráviksspárnar.
Ólíkar sviðsmyndir um hagþróun
Þróun ferðamannastraumsins hefur svo umtalsverð áhrif á hagþróun komandi missera og eru áhrifin sterkust á næsta ári. Til einföldunar er hér miðað við að hver ferðamaður skili áþekkum tekjum til þjóðarbúsins og verið hefur að meðaltali undanfarið ár eða svo. Hausatalningin skiptir þó ekki ein og sér öllu máli og hægari fjölgun samfara lengri dvöl og meiri umsvifum hvers ferðamanns hér á landi gæti hæglega skilað sama ábata fyrir hagkerfið og sá fjölgunartaktur sem teiknaður er upp í grunnspánni og fráviksspánum tveimur. Hið gagnstæða á svo auðvitað við ef fjölgunin verður meiri meðal ferðamanna sem stoppa stutt og eyða litlu hérlendis.