Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hversu miklu máli skiptir ferðamannafjöldinn á næstunni?

Upptakturinn í komum ferðamanna eftir faraldur ræður miklu um uppganginn í hagkerfinu til skemmri tíma litið. Þróun gengis krónu, verðbólgu, atvinnuleysis og hagvaxtar mun að talsverðum hluta ráðast af fjölgun ferðamanna og eru áhrifin líklega sterkust á næsta ári. Með tímanum mun þó ferðaþjónustan væntanlega taka sér stöðu við hlið sjávarútvegs og orkufreks iðnaðar sem þroskuð útflutningsgrein og aðrar greinar taka við vaxtarkeflinu.


Eftir myndarlegan sumarvöxt í komum ferðamanna hingað til lands lítur út fyrir nokkurt bakslag á lokaþriðjungi ársins. Ris Delta-bylgju faraldursins hér á landi sem og erlendis og afleiðingar hennar fyrir ferðavilja og landamæraaðgerðir skýra þá þróun.

Ísland er hins vegar enn álitlegur ferðamannastaður í augum margra í kjölfar heimsfaraldurs. Snör viðbrögð erlendra ferðamanna við afléttingu á landamærahömlum sumrin 2020 og 2021 eru til marks um talsverðan ferðavilja hingað til lands. Þá hljóða erlendar spár upp á allhraða aukningu á ferðalögum í einkaerindum á heimsvísu næstu misseri.

Nýlegar fréttir af opnun landamæra Bandaríkjanna fyrir bólusettum ferðamönnum 1. nóvember eru nýjasta dæmið um batnandi horfur í ferðaþjónustu landa á milli og má búast við að fleiri slík skref í slökun á landamærahömlum verði tekin á komandi fjórðungum í þeim löndum þar sem flestir ferðamenn til Íslands búa.

Mikil óvissa um fjölgun ferðamanna litar spágerð

Bati ferðaþjónustunnar skiptir miklu máli fyrir hagþróun komandi fjórðunga enda er greinin stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar. Fjölgun starfa og vöxtur í útflutningstekjum til skemmri tíma litið er því nátengt þróuninni innan greinarinnar.

Í nýbirtri þjóðhagsspá okkar spáum við því að u.þ.b. 600 þúsund ferðamenn sæki landið heim á þessu ári. Þegar hafa 337 þúsund ferðamenn heimsótt Ísland á fyrstu 8 mánuðum ársins og gerum við því ráð fyrir 260 þúsund ferðamönnum á lokaþriðjungi ársins. Gangi spá okkar eftir yrði fjöldi þeirra innan við þriðjungur af fjöldanum árið 2019.

Á næsta ári gerum við ráð fyrir tæplega 1,3 milljón ferðamönnum sem jafngildir ríflega tvöföldun ferðamanna á milli ára. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir 15% fjölgun milli ára og tæpum 1,5 milljónum ferðamanna árið 2023.

Veruleg óvissa er hins vegar um upptaktinn í komum ferðamanna hingað til lands. Við gerðum því einnig fráviksspár þar sem lagðar eru til grundvallar ýmist svartsýnni eða bjartsýnni forsendur en í grunnspánni. Forsendurnar, ásamt spánum sjálfum, er að finna í viðauka aftan við þjóðhagsspá okkar. Fjöldi ferðamanna gæti reynst á bilinu 560 þúsund – 700 þúsund á þessu ári og á bilinu 900 þúsund – 1,5 milljónir á því næsta miðað við fráviksspárnar.

Ólíkar sviðsmyndir um hagþróun

Þróun ferðamannastraumsins hefur svo umtalsverð áhrif á hagþróun komandi missera og eru áhrifin sterkust á næsta ári. Til einföldunar er hér miðað við að hver ferðamaður skili áþekkum tekjum til þjóðarbúsins og verið hefur að meðaltali undanfarið ár eða svo. Hausatalningin skiptir þó ekki ein og sér öllu máli og hægari fjölgun samfara lengri dvöl og meiri umsvifum hvers ferðamanns hér á landi gæti hæglega skilað sama ábata fyrir hagkerfið og sá fjölgunartaktur sem teiknaður er upp í grunnspánni og fráviksspánum tveimur. Hið gagnstæða á svo auðvitað við ef fjölgunin verður meiri meðal ferðamanna sem stoppa stutt og eyða litlu hérlendis.

Vaxtartakturinn í ferðamannastraumnum hefur umtalsverð áhrif á þróun þjónustuútflutnings og þar með viðskiptajöfnuð. Hraðari fjölgun ferðamanna hefur í för með sér öflugri útflutningsvöxt, skjótari viðsnúning yfir í viðskiptaafgang og þar með hraðari styrkingu krónu en ella. Verðbólga gengur í kjölfarið hraðar niður en annars sem m.a. endurspeglast í meiri kaupmáttaraukningu almennings.

Óhagstæð þróun í fjölda ferðamanna kallar svo fram andstæða atburðarás. Útflutningsvöxtur verður lakari, viðskiptajöfnuður óhagstæðari, krónan veikari og verðbólga þrálátari.

Ofangreind þróun endurspeglast svo í hagkerfinu með ýmsum hætti. Hröð fjölgun starfa í hinum mannaflsfreka ferðaþjónustugeira leiðir til minna atvinnuleysis en ella á komandi misserum. Einkaneysluvöxtur verður kröftugri vegna lækkandi atvinnuleysis, hraðari kaupmáttaraukningar og almennt léttari brúnar á landsmönnum, atvinnuvegafjárfesting glæðist væntanlega enn frekar en annars væri og spurn eftir húsnæði verður meiri. Innlend eftirspurn verður því sprækari, rétt eins og útflutningurinn. Á móti vegur að innflutningur vex nokkru hraðar en ella. Landsframleiðsla verður því samkvæmt bjartsýnu fráviksspá okkar 1,2% meiri í lok spátímans en í grunnspánni.

Að sama skapi leiðir hæg fjölgun ferðamanna á endanum til þess að landsframleiðsla í lok tímabilsins verður 1,7% minni í svartsýnu fráviksspánni en í grunnspá þar sem bæði einkaneysla, fjárfesting og útflutningur vex hægar. Á móti verður vissulega innflutningsvöxtur hægari á móti. Rétt er að halda til haga að hér er ekki gert ráð fyrir umfangsmiklum hagstjórnarviðbrögðum. Þó mun Seðlabankinn að mati okkar vega breyttar verðbólguhorfur á móti mismunandi efnahagshorfum og hið opinbera haga fjárfestingaráformum sínum að hluta með hliðsjón af þróuninni þegar fram í sækir.

Ferðaþjónustan fullorðnast

Í sem stystu máli ræður endurkoma ferðamannastraumsins að okkar mati miklu um hversu hratt hagkerfið tekur við sér á allra næstu misserum. Í kjölfarið munu þó aðrir geirar í síauknum mæli taka við keflinu varðandi frekari vöxt. Á það ekki síst við um þjónustugreinar á borð við sköpun og útflutning hugverka, sem hafa verið í örum vexti undanfarin ár þótt sú þróun hafi ef til vill fallið í skuggann af gífurlegum vexti ferðaþjónustunnar á síðasta áratug. Ferðaþjónustan mun því þegar til lengdar lætur líklega taka sér stöðu við hlið sjávarútvegs og og orkufreks iðnaðar sem þroskuð lykilútflutningsgrein á meðan vaxtarbroddarnir í útflutningi verða væntanlega fremur á sviðum þar sem hugvit leikur stærra hlutverk en hinar hefðbundnu náttúruauðlindir landsins.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband