Þrálát verðbólga, versnandi skammtíma verðbólguhorfur og batnandi efnahagur urðu til þess að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli í maí á síðasta ári. Stýrivextir eru nú 3,75% eftir 3 prósenta hækkun undanfarið ár.
Hversu hátt fara vextir Seðlabankans?
Líklegt er að stýrivextir verði hækkaðir talsvert til viðbótar á komandi mánuðum. Vextirnir gætu náð hámarki á bilinu 5-6 prósentur undir lok þessa árs. Hægfara vaxtalækkunarferli gæti fylgt í kjölfarið þegar verðbólga hjaðnar og dregur úr spennu í hagkerfinu.
Í maí var peningastefnunefnd Seðlabankans sammála um að hækka stýrivexti um 1 prósentu samkvæmt fundargerð vaxtaákvörðunarfundanna. Hækkun um 0,75 prósentur var þó einnig rædd.
Helstu rök fyrir hækkun vaxta voru að mati nefndarmanna:
- Verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert undanfarið.
- Verðbólguvæntingar hefðu einnig hækkað á alla mælikvarða og því aukin hætta á að kjölfesta þeirra við markmið hefði veikst.
- Raunvextir hefðu því lækkað enn frekar milli funda nefndarinnar og væru verulega neikvæðir og langt undir jafnvægisraunvöxtum.
- Einnig væri meiri hætta á að verðbólga á næstunni væri vanmetin en að hún væri ofmetin og óvissa hefði aukist.
- Batinn á vinnumarkaði hefði verið hraður og störfum fjölgað talsvert.
- Kaupmáttur ráðstöfunartekna og launa hefði einnig vaxið töluvert undanfarin ár þrátt fyrir efnahagssamdrátt í kjölfar farsóttarinnar.
- Áhyggjur af mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum.
- Eftirspurn á húsnæðismarkaði og hækkun húsnæðisverðs hefðu verið meiri en gert hefði verið ráð fyrir og að framboð húsnæðis hefði aukist hægar.
Helstu rök fyrir að taka minna skref en stærra voru:
- Alþjóðlegar efnahagshorfur gætu versnað meira en búist væri við sem myndi að öðru óbreyttu draga úr hagvexti hér á landi.
- Nú gengi hraðar á uppsafnaðan sparnað margra heimila og hluti aukinnar einkaneyslu tengdist afleiðingum farsóttarinnar.
- Einnig hefðu horfur um kaupmátt launa versnað og þ.a.l. væri mögulegt að draga myndi hratt úr innlendum umsvifum þegar liði á árið.
Í niðurlagi fundargerðarinnar segir:
Nefndin ræddi að líklegt væri að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum myndu skipta miklu um hversu hátt vextir þyrftu að fara.
Nefndarmenn hafa í ræðu og riti fjallað um nauðsyn þess að raunstýrivextir hækki upp fyrir núllið á komandi mánuðum . Vextirnir eru ennþá neikvæðir á alla mælikvarða þrátt fyrir prósentu vaxtahækkunina í maí. Það má því fullljóst vera að talsverðrar frekari hækkunar vaxta er þörf til þess að ná því markmiði.
Hins vegar eru ýmsar mismunandi leiðir til þess að meta raunstýrivextina og sú augljósasta, að draga mælda verðbólgu frá nafnvöxtunum, er almennt ekki talin gefa glögga mynd af raunverulegum raunvöxtum þar sem með henni er verið að bera saman liðna verðbólgu og vaxtastig sem gildir fram í tímann. Raunstýrivextir fundnir með samanburði stýrivaxtanna við verðbólguvæntingar og verðbólguálag á markaði eru vissulega nokkru hærri en ef liðin verðbólga er notuð í útreikningana en okkur reiknast til að þeir séu þessa dagana á bilinu -1,3 til -2,0 prósent.
Af orðum og gerðum Seðlabankafólks undanfarið má því ráða að talsverð frekari hækkun vaxta sé í kortunum til skemmri tími litið í því skyni að koma böndum á verðbólgu, halda aftur af verðbólguvæntingum og ýta raunstýrivöxtunum nokkuð yfir núllið.
Talsverð viðbótarhækkun stýrivaxta líkleg á komandi mánuðum
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar spáum við því að stýrivextir hækki áfram allhratt á komandi mánuðum og nái hámarki á bilinu 5 – 6% í lok þessa árs. Að því gefnu að þá sé farið að draga úr verðbólgu og eftirspurnarþrýstingi í hagkerfinu áætlum við að vöxtum verði haldið óbreyttum fram eftir árinu 2023 en vextirnir taki að lækka að nýju á seinni helmingi þess árs. Óvissan í þessari spá er þó fremur upp á við til skemmri tíma. Við teljum ólíklegt að vextirnir verði lægri en 5% undir lok árs en talsverðar líkur á því að þeir fari yfir 6%, sér í lagi ef verðbólga reynist þrálátari en við spáuma. Við tekur svo hægfara lækkunarferli eftir mitt næsta ár í átt að jafnvægisraunvöxtum sem líklega eru á bilinu 1 – 1,5%. Stýrivextir gætu því verið í grennd við 4,5% undir lok spátímans en vitaskuld er óvissa um þróunina mikil þegar fram í sækir.
Miðað við vaxtaferla á markaði virðist umtalsverð stýrivaxtahækkun þegar vera verðlögð inn í langtímavexti. Langtíma grunnvextir eru nú í kring um 5,3% en um það bil 1,0% sé miðað við raunvexti. Hafa langtíma nafnvextir hækkað töluvert það sem af er ári en raunvextir eru á svipuðum slóðum og í ársbyrjun þrátt fyrir sveiflur.
Að því gefnu að stýrivextir þróist í takti við spá okkar teljum við að einhver hækkun langtímavaxta sé fram undan á komandi fjórðungum. Vextir hjaðni síðan hægt og bítandi að nýju og gerum við ráð fyrir að undir lok spátímans verði langtímavextir komnir nálægt jafnvægisgildum, sem við metum í kring um 4,5% í tilfelli nafnvaxta en í námunda við 1,3% hvað raunvexti varðar.