Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvers virði verður fólk í framtíðinni?

Að búa sig undir breyttan heim.


Það er erfitt að ímynda sér hvað framtíðin ber í skauti sér. En eitt er víst að framundan eru miklar breytingar. Breytingar sem koma til með að færa okkur ný tækifæri, nýjar áskoranir, ný störf. Breytingar sem koma til með að reyna enn meira á okkur, á aðlögunarhæfni okkar, frumkvæði, þrautseigju, sköpunarkraftinn og samskipti okkar á milli.

Það er okkar að vera vel undirbúin og búa okkur undir breyttan heim.

Breytingarnar hafa það í för með sér að mannauðurinn er mikilvægari sem aldrei fyrr. Það er nefnilega svo að Íslandsbanki framtíðarinnar þarf á okkur, starfsfólki bankans, að halda. Hvort sem við spólum 10 ár fram í tímann eða til ársins 2050 – þá er ég þeirrar skoðunar að það kemur ekki til með að breytast með tilkomu nýrrar tækni. Framfarir og framþróun, nýsköpun og skapandi hugsun – þegar eitthvað nýtt verður til er það fyrst og fremst hugverk okkar. Oft jú með hjálp tækninnar. En án okkar verður ekkert til.

En hvað þýðir það?

Rannsóknir hafa sýnt að einn af hverjum fjórum mun á sinni lífstíð takast á við andlegar áskoranir. Þegar mín kynslóð, aldamótakynslóðin, einstaklingar fæddir á árunum 1981-1996 eru skoðaðir sýna niðurstöður að 7 af hverjum 10 hafa upplifað einkenni kulnunar.

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað veldur. Er það breyttur heimur, hraðinn í samfélaginu, tómstundir, tómstundir barnanna okkar, samfélagsmiðlar, samfélagsmiðlar og börnin okkar, skíðaferðir, tásumyndir á Tene – allir í öllu, allstaðar. Mögulega.

En það er ljóst að Íslandsbanki framtíðarinnar verður að fókusa á andlega heilsu. Starfsfólki verður að líða vel, það verður að upplifa öryggi, traust og virðingu. Með trausti og virðingu koma fram skapandi hugmyndir. Hugmyndir verða ekki til í tómarúmi, það vitum við. Hugmyndirnar verða til þegar við skiptumst á skoðunum, hlustum hvert á annað. Við erum í grunninn félagsverur og samskipti við annað fólk er ein af grunnþörfum okkar – það kemur ekki til með að breytast með tilkomu nýrrar tækni. Starfsfólk verður að geta tjáð hug sinn, sett fram nýjar hugmyndir, spurt spurninga og gert mistök. Það er grunnurinn að frjósömum jarðveg þar sem hugmyndir vaxa og dafna. Saman sköpum við virði til framtíðar. Það hefst allt og endar með okkur!

Höfundur


Thelma Sif Sævarsdóttir

Sálfræðingur og sérfræðingur í mannauðsmálum