Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvers vegna Katar og hvað kosta herlegheitin?

Væri það rétt að kostnaðurinn nemi þeim 25-30.000 milljörðum króna sem við lesum um í fjölmiðlum væri mótið um fjórfalt dýrara í framkvæmd en öll þau 21 mót sem þegar hafa verið haldin samanlagt.


Það er reginhneyksli að HM verði haldið í Katar!

Þessu hreytti enski blaðamaðurinn í fulltrúa katarska knattspyrnusambandsins sem boðið hafði góða kvöldið. Þetta var vorið 2016 og til stóð að við fengjum okkur saman drykk og spjölluðum á léttum nótum um fótbolta í miðborg Reykjavíkur. Eins og gefur að skilja varð strax ljóst hvert umræðuefnið yrði fram eftir kvöldi.

Sjónarmið um mikilvægi þess að Miðausturlönd fengju að hýsa heimsmeistaramót karla í knattspyrnu eins og aðrir og loforð um bættan aðbúnað verkafólks vógu ekki sérlega þungt gegn því sem virtist vera gjörspillt niðurstaða alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Blaðamaðurinn var ekki einn um að bölva ákvörðun 22 manna framkvæmdastjórnar sambandsins um að færa stærstu knattspyrnuveislu heims til Rússlands og Katars í sand og ösku. Efast var um hentugleika þess að halda mót af slíkri stærðargráðu í Katar og hvort um málefnalega ákvörðun hafi yfir höfuð verið að ræða.

Á þeim 6 árum sem liðin eru hefur lítið dregið úr áhyggjum þess efnis og á daginn hefur komið að ekki var aldeilis allt með feldu. Umfangsmikil málaferli og hinar ýmsu ásakanir hafa fylgt FIFA undanfarin ár. 10 meðlimir þáverandi framkvæmdastjórnar hlutu bann frá knattspyrnu vegna spillingar og brota á siðareglum, meðal annars vegna mútuþægni og 8 voru sömuleiðis ákærðir fyrir lögbrot. Fáir sluppu frá borði með óflekkað mannorð.

„En fyrir utan það allt saman frú Lincoln, hvernig fannst þér leiksýningin?“

Dómsmálum kyngir niður, mannréttindasamtök hafa gert alvarlegar athugasemdir við áberandi slæma stöðu verkafólks og í ljós hefur komið að sennilega er þetta allt saman eitt reginhneyksli eins og maðurinn sagði. En það virðist ekki hafa haft nokkur minnstu áhrif á í hvað stefnir og undir lok ársins verður heimsmeistaramótið haldið með pompi og prakt í Katar.

Landið er óneitanlega sérkennilegur vettvangur slíks viðburðar. Það þurfti að færa mótið nálægt jólum þar sem ekki er hægt að bjóða fólki upp á að spila fótbolta í Katar á sumrin og fjöldi sæta í þeim leikvöngum sem reistir verða vegna mótsins er meiri en fjöldi ríkisborgara í landinu (og 14% allra sem þar dvelja). Þá er mikil skortur á gistingu fyrir áhugasama ferðalanga og dýrt verðlag gefur hinu almenna knattspyrnuáhugafólki sennilega ekki færi á öðru en að fylgjast með heima í stofu.

Fleiri stórmót


HM 2018

Ítarleg skýrsla um fjármálahlið HM 2018 í Rússlandi

  HM 2018

  EM 2014

  Grein um helstu fjárhæðirnar á EM 2021

   EM 2021

   Reikningurinn

   Ítrekað hefur því verið haldið fram að um sé að ræða langdýrasta heimsmeistaramót sögunnar. Væri það rétt að kostnaðurinn nemi þeim 25-30.000 milljörðum króna sem við lesum um í fjölmiðlum væri mótið um fjórfalt dýrara í framkvæmd en öll þau 21 mót sem þegar hafa verið haldin samanlagt. Til samanburðar nam kostnaður heimsmeistaramótsins í Brasilíu árið 2014, sem fór algjörlega úr böndunum, um 2.000 milljörðum króna.

   Nei, mótið verður ekki svo dýrt í krónum talið, en nógu mikið kostar það nú samt, enda þarf að borga fyrir pompið, svo ég tali ekki um alla þá prakt sem í boði verður að ótöldum lífum verkafólks frá Suður-Asíu. Líklegra er að Katarar verji rétt tæplega 1.000 milljörðum króna í þá 8 leikvanga sem leikið verður á og nokkur hundruð milljörðum til viðbótar í aðstöðu við vellina og breytingar á þeim að móti loknu. Sætunum 380.000 verður fækkað í 152.000 á næsta ári, enda verða þessir 1.000 milljarða króna leikvangar að mestu óþarfir eftir mótsleikina 64.

   Raunverulegur kostnaður HM í Katar verður því ekki svo frábrugðinn kostnaðinum við mótin í Brasilíu 2014 og Rússlandi 2018 en hvers vegna er þá talað um margfalt hærri fjárhæð, jafnvel af opinberum aðilum og virtum fjölmiðlum? Eins og svo oft áður er bókhaldið nýtt til að segja tiltekna sögu og ýmsir útgjaldaliðir færðir undir bókhald HM sem langsótt er að taka með í reikninginn. Þannig fara hátt í 5.000 milljarðar króna í að leggja stærðarinnar lestarkerfi um landið og tæpir 8.000 milljarðar í ýmis fasteignaverkefni í nágrenni leikvanganna svo sem golfvelli, skemmtigarða, hótel og hafnarmannvirki. Ólíklegt er að fótbolti hafi ráðið því að lagst var í þær framkvæmdir.

   Það er ekki tilviljun hversu oft einræðisríki eða ríki með sterka leiðtoga við völd sækjast eftir stórmótum í íþróttum og reynslan virðist vera góð því ekkert lát er á áhuganum.

   Ávinningurinn

   HM mun kosta Katara skildinginn og beinar tekjur landsins vegna mótsins verða sáralitlar, enda hirðir FIFA því sem næst allar tekjur sem heimsmeistaramóti fylgja. Mótið verður því rekið með gríðarlegu tapi en hvers vegna eru leiðtogar landsins þá að standa í þessu?

   Til lengri tíma litið getur talsverður fjárhagslegur ávinningur verið metinn í sterku orðspori og því talist ákjósanlegt að fjárfesta í að bæta það. Knattspyrnu hefur óspart verið beitt í slíkum erindagjörðum á undanförnum árum, hvort sem er með eignarhaldi á félagsliðum eða hýsingu stórmóta og HM í Katar er því ekkert nýtt í þeim efnum. Bætt orðspor, aðgengi að valdafólki og skilaboð um að ríkið geti ekki bara tekið að sér verkefni að þessari stærðargráðu heldur gert það með glæsibrag eru dýrmæt í huga þeirra sem halda um stjórnartaumana. Það er ekki tilviljun hversu oft einræðisríki eða ríki með sterka leiðtoga við völd sækjast eftir stórmótum í íþróttum og reynslan virðist vera góð því ekkert lát er á áhuganum.

   Þetta tiltekna mót er hluti gríðarstórrar fjárfestingar Katara í knattspyrnu, jafnt innan landsteinanna sem og utan þeirra, einna helst með knattspyrnuliðinu Paris Saint-Germain. Bestu knattspyrnumenn heims eru beintengdir við Katar í gegnum fótbolta, hvort sem þeir leika í París eða etja kappi á HM í Katar og til þess er leikurinn gerður. Að verja nokkrum þúsundum milljarða í fótbolta til að þéna enn fleiri þúsundir milljarða í framtíðinni þarf ekki að vera svo vitlaust.

   En hvers vegna er þá verið að þenja reikninginn út í fjölmiðlum? Hvers vegna að segjast ætla að eyða 30.000 milljörðum í mót sem er ekki að fara að kosta nema brot af þeirri fjárhæð? Ja, hvers vegna keppast nágrannalöndin við að reisa hæstu byggingar heims án sjáanlegrar hagkvæmni og hvers vegna breiðir páfuglinn úr stélinu? Ætli það sé ekki til að sýna sig. Til að sýnast jafnvel enn stærri og merkilegri en tilefni er til og heilla umheiminn. HM í Katar er akkúrat það. Reykspólandi BMW með skyggðar rúður á skólalóð og bílstjóra sem nötrar af áhyggjum af því að fólki finnist hann ekki nógu merkilegur nema hann þenji vélina enn frekar og hækki í tónlistinni.

   Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að hvernig svo sem bókhaldið lítur út telja ráðamenn í Katar ávinning þess að hýsa heimsmeistaramót karla í knattspyrnu umtalsverðan. Annars hefði ekki verið gengið svo langt og hart fram við að tryggja að svo yrði.

   Greinin birtist fyrst í Vísbendingu

   Höfundur


   Björn Berg Gunnarsson

   Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


   Hafa samband