Þessu hreytti enski blaðamaðurinn í fulltrúa katarska knattspyrnusambandsins sem boðið hafði góða kvöldið. Þetta var vorið 2016 og til stóð að við fengjum okkur saman drykk og spjölluðum á léttum nótum um fótbolta í miðborg Reykjavíkur. Eins og gefur að skilja varð strax ljóst hvert umræðuefnið yrði fram eftir kvöldi.
Sjónarmið um mikilvægi þess að Miðausturlönd fengju að hýsa heimsmeistaramót karla í knattspyrnu eins og aðrir og loforð um bættan aðbúnað verkafólks vógu ekki sérlega þungt gegn því sem virtist vera gjörspillt niðurstaða alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Blaðamaðurinn var ekki einn um að bölva ákvörðun 22 manna framkvæmdastjórnar sambandsins um að færa stærstu knattspyrnuveislu heims til Rússlands og Katars í sand og ösku. Efast var um hentugleika þess að halda mót af slíkri stærðargráðu í Katar og hvort um málefnalega ákvörðun hafi yfir höfuð verið að ræða.
Á þeim 6 árum sem liðin eru hefur lítið dregið úr áhyggjum þess efnis og á daginn hefur komið að ekki var aldeilis allt með feldu. Umfangsmikil málaferli og hinar ýmsu ásakanir hafa fylgt FIFA undanfarin ár. 10 meðlimir þáverandi framkvæmdastjórnar hlutu bann frá knattspyrnu vegna spillingar og brota á siðareglum, meðal annars vegna mútuþægni og 8 voru sömuleiðis ákærðir fyrir lögbrot. Fáir sluppu frá borði með óflekkað mannorð.
„En fyrir utan það allt saman frú Lincoln, hvernig fannst þér leiksýningin?“
Dómsmálum kyngir niður, mannréttindasamtök hafa gert alvarlegar athugasemdir við áberandi slæma stöðu verkafólks og í ljós hefur komið að sennilega er þetta allt saman eitt reginhneyksli eins og maðurinn sagði. En það virðist ekki hafa haft nokkur minnstu áhrif á í hvað stefnir og undir lok ársins verður heimsmeistaramótið haldið með pompi og prakt í Katar.
Landið er óneitanlega sérkennilegur vettvangur slíks viðburðar. Það þurfti að færa mótið nálægt jólum þar sem ekki er hægt að bjóða fólki upp á að spila fótbolta í Katar á sumrin og fjöldi sæta í þeim leikvöngum sem reistir verða vegna mótsins er meiri en fjöldi ríkisborgara í landinu (og 14% allra sem þar dvelja). Þá er mikil skortur á gistingu fyrir áhugasama ferðalanga og dýrt verðlag gefur hinu almenna knattspyrnuáhugafólki sennilega ekki færi á öðru en að fylgjast með heima í stofu.