Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvers vænta landsmenn á árinu 2023?

Væntingar almennings og fyrirtækjastjórnenda benda til þess að um hægist í efnahagslífinu á næsta ári þótt veruleg svartsýni sé ekki áberandi í þeim efnum. Stjórnendur fyrirtækja og þátttakendur á fjármálamarkaði búast almennt við verulegri hjöðnun verðbólgu og greina má væntingar um að vextir taki að lækka á ný þegar lengra líður á komandi ár.


Eftir viðburðaríkt ár er fróðlegt að fara yfir hvers almenningur, fyrirtækjastjórnendur og fólk á fjármálamörkuðum væntir af komandi ári.

Væntingar almennings virðast hafa náð jafnvægi eftir talsverðar sveiflur á árinu. Væntingavísitala Gallup (VVG) mældist tæp 99 stig í desember, sjónarmun frá jafnvægisgildinu 100 sem markar skilin milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum heimilum. Væntingar til 6 mánaða um ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum mældust ríflega 95 stig í vísitöluútreikningi Gallup. Það þýðir að þau sem töldu að um mitt ár 2023 yrði efnahags- og atvinnuástandið lakara en núverandi staða voru heldur fleiri en hin sem bjuggust við betri tíð að hálfu ári liðnu. Eins og sést af myndinni hefur þó svartsýni á komandi tíma oft verið mun útbreiddari (þ.e. guli ferillinn fyrir neðan jafnvægisgildið) en nú.

Eins og við fjölluðum um nýlega var 2022 líklega ár mesta einkaneysluvaxtar frá því fyrir hrun. Sér í lagi var myndarlegur vöxtur í ýmsum stærri þáttum neyslu á borð við utanlandsferðir og bílakaup. VVG gefur oft allgóða vísbendingu um hvert stefnir í þessum efnum en einnig er fróðlegt að rýna í Stórkaupavísitöluna sem Gallup mælir ársfjórðungslega. Ef marka má nýjustu mælingu á henni sem birt var rétt fyrir jól virðast landsmenn heldur ætla að rifa seglin að þessu leytinu. Þar munar mestu um að talsvert færri hyggja á bílakaup ef marka má mælingu Gallup en verið hefur undanfarna fjórðunga.  

Hins vegar er ferðahugur landans ennþá umtalsverður og margir hyggja á utanlandsferð á komandi ári. Athygli vekur einnig að þeim fjölgar á ný sem hyggja á íbúðakaup á komandi fjórðungum en þar gætu væntingar um aukið framboð og stöðugra verð á nýju ári verið að segja til sín.

Brún fyrirtækjastjórnenda þyngist

Gallup mælir einnig væntingar stjórnenda helstu fyrirtækja landsins á vegum Seðlabankans og Samtaka atvinnulífsins. Brúnin á þeim hópi hefur heldur þyngst ef marka má nýjustu mælingar en þó hefur svartsýnin síður tekið öll völd á þeim bæ. Mat á núverandi aðstæðum í efnahagslífinu er lítillega undir jafnvægisgildi eftir að hafa verið talsvert yfir jafnvægi allt frá vordögum 2021 fram á mitt þetta ár. Þá telja fleiri stjórnendur að aðstæður muni versna á komandi 6 mánuðum en að þær muni batna.

Reynslan hefur sýnt að sveiflur í væntingum stjórnenda speglast oft á tíðum í þróun almennrar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja fjórðungana á eftir. Nýja mæling Gallup bendir því til þess að fyrirtæki landsins muni frekar stíga á bremsuna en hitt í fjárfestingum, eða að minnsta kosti létta á bensínfætinum. Nýleg könnun Seðlabankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem birt var í Peningamálum segir sömu sögu.

Samandregið má því segja að þessar nýjustu mælingar á væntingum almennings og fyrirtækjastjórnenda rími ágætlega við spá okkar fyrir árið 2023 frá september sl. þar sem gert er ráð fyrir hægum einkaneysluvexti og samdrætti í fjárfestingu atvinnuvega á komandi ári.

Væntingar margra um minni verðbólgu og lægri vexti

Eftir ár verðbólguskots og ört hækkandi vaxta er forvitnilegt að skoða hverju landsmenn búast við í þeim efnum á komandi ári. Líkt og fyrri daginn skera heimilin sig nokkuð frá öðrum hvað þetta varðar. Eins og myndin sýnir stjórnast væntingar heimila um verðbólgu komandi 12 mánaða að mestu af verðbólgunni eins og hún mælist á hverjum tíma. Það kemur því ekki á óvart að samkvæmt nýjustu mælingu Gallup búast heimilin við því að jafnaði að verðbólga muni mælast 8% á lokafjórðungi ársins 2023.

Stjórnendur fyrirtækja og markaðsaðilar á fjármálamarkaði eru öllu bjartsýnni á verðbólguþróun komandi árs. Telja þessir aðilar að verðbólga verði í grennd við 5% að ári liðnu. Svo vill til að nýjasta verðbólguspá okkar er á sömu leið enda teljum við líklegt að bæði innflutningsverðlag og verðþróun á íbúðamarkaði muni setja mun minni hækkunarþrýsting á vísitölu neysluverðs á komandi ári en raunin var á því ári sem nú rennur sitt skeið.

Færra er um svör þegar kemur að væntingum um þróun stýrivaxta á komandi ári. Þó liggur fyrir nýleg könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila sem framkvæmd var í aðdraganda vaxtaákvörðunar bankans í lok nóvember. Rétt er að taka fram að eftir að könnunin var gerð kom vitaskuld á daginn að Seðlabankinn hafði ekki sagt sitt síðasta orð í vaxtahækkunarferli sínu.

Svör markaðsaðila voru á þá lund að vextir myndu haldast óbreyttir fram á mitt ár 2023 og taka að lækka hægt og bítandi eftir það. Til samanburðar sýnir myndin einnig nýjustu stýrivaxtaspá okkar. Líkt og markaðsaðilar teljum við góðar líkur á að vaxtahækkunarferli Seðlabankans kveðji með árinu 2022 og vextir taki að þokast niður á við að nýju þegar lengra líður á árið 2023. Þar skiptir þó þróun verðbólgu, eignamarkaða og efnahagslífsins í heild sköpum. Líkt og rakið er hér að framan er þó ekki að sjá annað en væntingar séu almennt um hægari vaxtartakt og hjaðnandi verðbólgu á því ári sem senn fer í hönd.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband