Eins og fyrr segir voru reglur um greiðslubyrðahlutfall settar á í desember 2021. Má ætla að Fjármálastöðugleikanefnd hafi sérstaklega litið til fyrstu kaupenda og aukinnar greiðslubyrði þeirra á þeim tíma þegar reglurnar voru settar á. Frá árinu 2022 hefur greiðslubyrði fyrstu kaupenda lítið aukist þrátt fyrir hærra vaxtaumhverfi, en hlutfallið mælist á þessu ári að meðaltali um 30%. Greiðslubyrði allra kaupenda hefur á sama tíma hækkað aðeins meira eða úr 20% í 22%, sem er þó talsvert meira undir reglum Seðlabankans um greiðslubyrðahlutfallið. Ætla má að svigrúm annarra kaupenda fyrir aukinni greiðslubyrði hafi verið meiri en hjá fyrstu kaupendum og þeir hafi því í minni mæli sótt í þau lánaform sem lágmarka greiðslubyrði s.s. verðtryggð jafngreiðslulán.
Miðað við þessi gögn hafa reglur Seðlabankans komið í veg fyrir of mikla skuldsetningu lántakenda í miklum verðhækkunum síðustu ár en einnig hægt á eftirspurn á íbúðamarkaði. Hækkun vaxta hefur einnig átt sinn þátt í hægari eftirspurn en áhugavert er að greiðslubyrði nýrra fasteignalána hafi ekki aukist meira á þessum tíma þar sem stýrivextir fóru frá því að vera 0,75% um mitt ár 2021 í að standa hæst í 9,25% um mitt árið 2023. Vextir hafa lækkað síðan þá og standa nú í 7,5%.
Verðtryggð lán vinsælasta lánaformið
Líkleg meginástæða fyrir því að greiðslubyrðahlutfallið hefur ekki hækkað meir en ella þrátt fyrir töluvert hærra vaxtastig síðustu ár er mikil ásókn í verðtryggð lán. Verðtryggð lán eru þess eðlis að greiðslubyrðin er mun lægri í upphafi en á óverðtryggðum lánum en eignamyndunin hægari. Þegar vextir voru lágir í faraldrinum var stærstur hluti nýrra fasteignalána óverðtryggður og á breytilegum vöxtum. Þegar vextir fóru hækkandi á ný eftir því sem leið á árið 2021 fóru lántakendur að festa vexti í meiri mæli. Ásókn í verðtryggð lán náði svo hámarki á ný frá miðju ári 2023 á sama tíma og vextir náðu hámarki í 9,25%. Á lokafjórðungi ársins 2024 hóf Seðlabankinn hægfara lækkun vaxta og á sama tíma hafa óverðtryggð lán á föstum vöxtum verið að ryðja sér til rúms á ný. Það sem af er ári bera 59% nýrra fasteignalána verðtryggða vexti og 41% óverðtryggða.