Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvaða þýðingu hefur vaxandi rekstrarafgangur?

Útlit er fyrir að rekstrarafgangur sveitarfélaga muni aukast á næstu árum.


Sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða sem hlutfall af tekjum verði rúmlega 2% á þessu ári eða um einu prósentustigi hærra hlutfall en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þá gera áætlanir fyrir komandi ár ráð fyrir áframhaldandi þróun í þessa átt og að hlutfall rekstrarniðurstöðu á móti tekjum fari hækkandi og verði orðið um 6% árið 2021. Það er því útlit fyrir að rekstrarafgangur sveitarfélaga muni aukast á næstu árum sem gefur sveitafélögunum í einfaldri mynd svigrúm til að gera þrennt; Lækka skuldir, lækka útsvar og þar með álögur á íbúa eða auka þjónustustig við íbúa ýmist með því að fjárfesta í innviðum eða með öðrum hætti.

Er svigrúm til að lækka útsvar?

Sveitarfélögin hafa heimild til að innheimta útsvar af íbúum sínum sem er á bilinu 12,44%-14,52%. Einungis þrjú sveitarfélög innheimta lágmarks útsvar og skattbyrði íbúa þeirra sveitarfélaga er því lægra en í öðrum sveitarfélögum. Langflest sveitarfélög, eða 56 talsins, innheimta um þessar mundir hámarks útsvar og eru þar af leiðandi með hæstu mögulegu álögur á íbúa sína. Önnur sveitarfélög eða 15 talsins innheimta því útsvar einhversstaðar á áðurgreindu bili. Undanfarin ár hefur áhersla sveitarfélaganna í ríkum mæli verið á að lækka skuldir. Samhliða því má segja að myndast hafi ákveðin fjárfestingaþörf á sviði sveitarfélaganna. Að öllum líkindum mun það vera forgangsatriði að mæta þessari fjárfestingaþörf áður en tekin er ákvörðun um að lækka útsvar og því er ólíklegt að það verði almennt raunin að sveitarfélög lækki útsvar sitt. Samt sem áður eru sveitarfélögin mörg og reksturinn ólíkur þeirra á milli og gætu því leynst einstaka sveitarfélög þar sem að svigrúm er til að lækka útsvar.

Fjárfesting sveitarfélaganna forgangsatriði

Fjárfesting á sveitarstjórnarstiginu óx töluvert hraðar en væntingar stóðu til á síðasta ári. Þá stendur til að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á yfirstandandi ári. Er gert ráð fyrir því að rekstur sveitarfélaganna muni ekki standa undir fyrirhuguðum fjárfestingum og verða þær því fjármagnaðar með lántöku. Útlit er því fyrir að samhliða aukinni fjárfestingu sveitarfélaganna muni skuldsetning þeirra aukast á árinu 2018. Síðan mun skuldsetning lækka aftur árin þar á eftir þar sem sveitarfélögin telja að reksturinn muni að mestu leyti standa undir frekari fjárfestingum á því tímabili.

Pistillinn birtist fyrst á Vísi

Fjármál sveitarfélaga


Hvað skýrir betri stöðu sveitarfélaganna á Íslandi? Gestir Eddu Hermannsdóttur í Norðurturninum voru Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, Haraldur Líndal Haraldsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, Bergþóra Baldursdóttir, greiningu Íslandsbanka og Sölvi Sturluson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í greiningu


Senda tölvupóst