Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslensk sveitarfélög 2017

Rekstrarniðurstaða samstæðu sveitarfélaganna nam 41,5 mö. kr. á árinu 2017 og jókst um 9,6% á milli ára.


Ný skýrsla um íslensk sveitarfélög er komin út. Skýrslunni er ætlað að gefa gott yfirlit yfir stöðu sveitarfélaga á Íslandi og þróun síðustu ára. Íslandsbanki vonast til að skýrslan nýtist vel sem upplýsingarit um íslensk sveitarfélög, bæði fyrir þá sem starfa innan sveitarstjórnarstigsins og þá sem vilja fræðast um íslensk sveitarfélög.

Við útgáfu skýrslunnar er stuðst við ársreikninga sveitarfélaga 2017 og horft á fjárhagslega stöðu sveitarfélaga út frá þeim viðmiðum sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur horft til.

Sækja skýrslu (PDF)

Skýrslan í stuttu máli


Bergþóra Baldursdóttir sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka fer í stuttu máli yfir það sem fréttnæmast er í skýrslunni þetta árið.

Umræður um fjármál sveitarfélaganna


Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, Haraldur Líndal Haraldsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, Bergþóra Baldursdóttir, greiningu Íslandsbanka og Sölvi Sturluson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka ræða við Eddu Hermannsdóttur um stöðuna í fjármálum sveitarfélaga.

Helstu niðurstöður:

  • Flest sveitarfélög eru með hámarksútsvar, eða 56 talsins. Útsvar 15 sveitarfélaga er á bilinu 13,14-14,48%, og þrjú sveitarfélög eru með lágmarksútsvar.

  • Tekjur A-hluta sveitarfélaganna námu 316 mö. kr. á árinu 2017 og jukust um 9% á milli ára.

  • Hlutdeild tekna sveitarfélaganna í tekjum hins opinbera stóð í 28,5% á árinu 2017 og hefur ekki verið hærri í fimmtán ár hið minnsta.

  • Rekstrarniðurstaða sem hlutfall af tekjum A-hluta sveitarfélaganna nam 4% á árinu 2017 og hefur farið vaxandi undanfarin ár.

  • Vaxandi hlutfall rekstrarniðurstöðu á móti tekjum gefur sveitarfélögunum í einfaldri mynd svigrúm til að gera þrennt; lækka skuldir, lækka útsvar og þar með álögur á íbúa eða auka þjónustustig við íbúa ýmist með því að fjárfesta í innviðum eða með öðrum hætti.

  • Tekjur sveitarfélaga sem falla undir A- og B-hluta starfsemi þeirra námu 405,5 mö. kr. á árinu 2017 og jukust um 7% á milli ára.

  • Hlutfall skulda á móti eignum sveitarfélaganna hefur verið að lækka frá því að það náði hámarki í 73% á árinu 2009. Stóð hlutfallið í 56% á árinu 2017 og hefur ekki verið lægra frá árinu 2007.

  • Um 97% sveitarfélaga stóðu undir skuldsetningu ársins 2017 þegar horft er til A- og B-hluta, sem er sambærileg niðurstaða og á árinu 2016 þegar hlutfallið nam 98%.

*Starfsemi sveitarfélaga er skipt í A- og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta til eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Undir A-hluta falla lögbundin verkefni ásamt öðrum tilfallandi verkefnum. Í B-hluta eru fyrirtæki/stofnanir sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, eða eru að meirihluta á ábyrgð þess og rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Fyrirtæki/stofnanir í B-hluta eru
að mestu eða öllu leyti fjármagnaðar með þjónustugjöldum.