Hvað ert þú að gera við það sem þú leggur til hliðar?

Þegar kemur að því að ávaxta fjármuni skiptir fjárfestingatími máli, þ.e.a.s. hvort um er að ræða ávöxtun til lengri eða skemmri tíma. Fyrir skammtímasparnað er áherslan iðulega á að hafa greiðan aðgang að fjármunum og að lágmarka sveiflur og áhættu.


Þegar kemur að því að ávaxta fjármuni skiptir fjárfestingatími máli, þ.e.a.s. hvort um er að ræða ávöxtun til lengri eða skemmri tíma. Ef ætlunin er að ávaxta fjármuni til lengri tíma er jafnan tekin meiri áhætta í von um betri ávöxtun. Fyrir skammtímasparnað er áherslan iðulega á að hafa greiðan aðgang að fjármunum og að lágmarka sveiflur og áhættu. Þeir kostir sem koma til greina fyrir skammtímasparnað eru þá helst innlánsreikningar, bundnir eða óbundnir, víxlar, stutt skuldabréf og lausafjársjóðir. 

Helstu atriði sem horfa á til þegar hugað er að skammtímasparnaði eru:

  1. Lítil áhætta: Skammtímasparnaður ætti að vera í afurðum með litlum sveiflum í ávöxtun.
  2. Aðgengi: Það þarf að vera auðvelt og fljótlegt að nálgast fjármunina þegar þörf er á þeim.
  3. Ávöxtun: Ávöxtun og vextir milli sjóða, bankareikninga og verðbréfa geta verið mismunandi og því mikilvægt að skoða alla kosti vel.


Hér er farið yfir það helsta sem þarf að hafa í huga þegar kemur að ávöxtun til skamms tíma, hvaða kostir eru í boði og hvernig hægt er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu.

Innlán

Innlánsreikningar bera með sér fyrir fram ákveðna vexti og þar eru engar sveiflur. Áhættan er lítil og kjörin góð í ríkulegu samkeppnisumhverfi eins og verið hefur hérlendis. Vaxtabreytingar Seðlabankans endurspeglast hratt í kjörum slíkra reikninga, og því lækka kjörin fljótt í kjölfar stýrivaxtalækkana, nema á bundnum reikningum. Með bindingu er hægt að festa kjör til lengri tíma en þá er vert að hafa í huga að binda eingöngu það hlutfall af lausafé sem ekki þarf að hafa aðgengilegt á tímabilinu.

  • Áhætta: Lítil áhætta, innistæður tryggðar upp að 100.000 evrum, mikið eftirlit og regluverk.
  • Aðgengi: Óbundin innlán laus samstundis, bundin innlán laus í lok binditíma.
  • Ávöxtun: Fylgir ágætlega stýrivöxtum Seðlabankans en mismunandi vextir eftir tegundum innlánsreikninga.

Stutt verðbréf

Víxlar og stutt skuldabréf eru góður kostur til að festa vexti til skemmri tíma. Ólíkt bundnum bankareikningum er hægt að nálgast fjármunina með því að selja verðbréfin en því fylgir kostnaður bæði við kaup og sölu sem hefur áhrif á ávöxtun. Því er ekki ráðlagt að fjárfesta í skammtímaverðbréfum nema fyrir þann hluta sem sannarlega getur verið bundinn í einhvern tíma.

  • Áhætta: Sveiflur í ávöxtun eru nokkrar en þó litlar samanborið við lengri skuldabréf, einnig er ákveðin seljanleikaáhætta en það fer eftir útgefanda bréfs, og mótaðilaáhætta sem fer eftir því hver útgefandi er, ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki.
  • Aðgengi: Til að nálgast fjármuni fyrir gjalddaga þarf að selja skuldabréf á markaði sem felur í sér hefðbundinn tveggja daga uppgjörstíma.
  • Ávöxtun: Oft betri ávöxtun en á bankareikningum en kostnaður við bæði kaup og sölu og því vert að hafa í huga að binda eingöngu það hlutfall af lausafé sem ekki þarf að hafa aðgengilegt á tímabilinu. 

Sjóðir

Lausafjársjóðir eru þeir sjóðir sem eru hvað líkastir því að vera með innlánsreikning, og sameina helstu kosti þessara valkosta sem að framan eru taldir, þ.e. sveiflur í ávöxtun lausafjársjóða eru litlar og aðgengi að fjármunum er gott enda er hægt að nálgast fjármuni með eins dags fyrirvara.

Stór hluti eigna sjóðanna er jafnan ávaxtaður í bundnum innlánum hjá fjármálafyrirtækjum og fá sjóðir góð kjör í krafti stærðar. Fjárfestingastefnur eru mismunandi en oftast er einnig fjárfest í stuttum skuldabréfum og víxlum, á ríki eða fjármálafyrirtæki, til að ná betri ávöxtun.  Sjóðstjórar fylgjast með kjörum á bæði innlánamarkaði og verðbréfamarkaði og endurfjárfesta fjármunum eftir því sem þeir koma á gjalddaga. Í krafti stærðar bjóðast líka hagkvæmari kjör í kaupum og sölu á verðbréfum og því er virk stýring á þeim hluta háð því hvernig útlit er fyrir vaxtaþróun. Almennt fylgir því enginn kostnaður að kaupa eða selja í lausafjársjóðum og því lítið mál að losa fjármuni eða fjárfesta aftur þegar kostur er.

Fjárfestingarstefnur geta verið misjafnar milli lausafjársjóða en í tilfelli IS Lausafjársafns er einungis fjárfest í víxlum og stuttum skuldabréfum sem gefin eru út af ríki eða fjármálafyrirtækjum, tryggum útgefendum sem eru undir ríkulegu eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

  • Áhætta: Lítil áhætta en mikilvægt að horfa á þá útgefendur sem sjóðir fjárfesta í og hvernig dreifing er á milli fjármálafyrirtækja, ríkis og annarra fyrirtækja, mikið eftirlit og regluverk.
  • Aðgengi: Laust með dags fyrirvara, að teknu tilliti til viðskiptatíma.
  • Ávöxtun: Jöfn og stöðug ávöxtun, almennt betri en á bankareikningi en getur verið síðri en af stökum verðbréfum.

Hverjir nýta sér lausafjársjóði?

Heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóðir nýta sér skammtímasjóði, þar með talið lausafjársjóði, og er skiptingin nokkuð jöfn á milli þessara aðila. Fyrir heimili eru lausafjársjóðir góður kostur fyrir varasjóð heimilisins, svo hægt sé að nálgast sparnað ef heimilistæki gefa upp öndina eða bíllinn þarf að fara í viðgerð. Fyrirtæki, stór sem smá, nýta lausafjársjóði til að ávaxta lausafé, t.d. smásölufyrirtæki sem fær inn greiðslur fyrir sölu jafnt og þétt yfir mánuðinn en tekur svo út fyrir launum og afborgunum um mánaðamót. Lífeyrissjóðir eiga jafnan í lausafjársjóðum og hafa þá t.d. aðgengi að fjármunum með stuttum fyrirvara ef fjárfestingatækifæri skapast á markaði.

Fyrir fyrirtæki getur skipt sköpun að huga að lausafjárstýringu. Fyrir minni fyrirtæki, sem ef til vill eru ekki með mikið eigið fé, en velta miklum fjármunum getur engu að síður skipt máli að fá ávöxtun á lausaféð. Ef veltan er mikil getur t.d. komið inn peningur sem staldrar við í einhverja daga eða vikur þar til fjármunir fara aftur út til að greiða fyrir vörur eða laun sem dæmi. Fyrir slíka stýringu hentar ekki vel að binda fjármuni til einhvers tíma og því helsta sem kemur til greina að nota óbundna reikninga eða lausafjársjóði.

Eigendur skammtímasjóða

Heimild: Seðlabanki Íslands (2024)

Listi yfir mikilvæg hugtök


Höfundar


Ingólfur Snorri Kristjánsson

Forstöðumaður skuldabréfastýringar Íslandssjóða


Helga Óskarsdóttir

Sjóðsstjóri skuldabréfastýringar Íslandssjóða


Fyrirvari vegna fræðsluefnis
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandsbanki hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandsbanki hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.