Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað er Elon Musk að kaupa?

Hverjar eru fyrirætlanir Elon Musk varðandi Twitter og hvernig hyggst hann fjármagna kaupin?


Fjárfestar virðast eiga í bölvuðum vandræðum með að mynda sér skoðun á kaupum ríkasta manns heims á samfélagsmiðlinum Twitter. Frá því Elon Musk tryggði sér ríflega 9% hlut í fyrirtækinu fyrir rúmum mánuði síðan hefur hlutabréfaverð þess ítrekað sveiflast um allt að 10% innan dags og réði fréttaflutningur af enn frekari kaupum hans þar miklu.

Nú virðist þetta þó meira og minna frágengið og því sem næst allt fyrirtækið á leið í hendur Musk. Hann hefur fengið í það minnsta 18 fjársterka aðila með sér í lið og tryggt sér lánsfjármögnun með veði í hlutabréfum hans í Tesla. Við ættum því að geta snúið okkur að því að ræða hvers vegna í ósköpunum hann vill greiða 6.000 milljarða króna fyrir samfélagsmiðil sem virðist vera fyrirmunað að sýna ásættanlega arðsemi.

Rekstur Twitter

Daglega ráfa um 230 milljónir manns inn á miðilinn, sem er ekki langt frá þeim 332 milljónum sem enn nota Snapchat en víðsfjarri milljarði notenda Instagram og tæpum tveimur milljörðum sem daglega skrá sig inn á Facebook.

Notendum fjölgar enn nokkuð og tekjurnar aukast að sama skapi en eitt helsta vandamál Twitter hefur legið í þeim tekjum sem hver og einn notandi skilar fyrirtækinu. Á meðan öllum samkeppnisaðilum hefur gengið hreint ljómandi vel að kreista sífellt meira úr notendum hafa tekjur Twitter á hvern þeirra staðið í stað frá árinu 2015, sem er áhyggjuefni. Slíkar tekjur nema í dag ríflega 3.000 kr. á ári, samanborið við þær 8.000 kr. sem notendur samfélagsmiðla Meta, móðurfélags Facebook og Instagram, skila.

Lítið hefur verið um hagnað og hlutabréfaverðið er á svipuðum slóðum og fyrir tæpum áratug. Þar er því heldur betur verk að vinna.

Áform Musk

Ekkert af þessu stendur þó í Musk og væntingar hans til rekstursins eru á pari við annað úr þeirri áttinni. Musk hyggst fimmfalda tekjurnar næstu sex árin. Þar eiga áskriftargjöld að vega þyngst samhliða mikilli fjölgun notenda, sem Musk áætlar að verði yfir 900 milljónir árið 2028. Selja á fólki betri upplifun og jafnvel greiðslumiðlun, en í dag er ómögulegt að meta hversu raunhæf þessi áform eru.

Önnur hlið kaupanna er þó jafnvel áhugaverðari en fjármálahliðin. Musk hefur miklar skoðanir á hlutverki Twitter í almennri umræðu og nú fær hann að ráða þessu öllu saman. Það gefur honum heilmikil völd yfir einum áhrifamesta miðli heims og þau völd vega ef til vill þyngra þegar litið er á ástæður kaupanna en er hvort ríkasti maður heims verði aðeins ríkari fyrir vikið.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Hafa samband