Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað ef spáin okkar rætist?

Greining Íslandsbanka var að birta spá fyrir árin 2023-2025. Hvað þýðir það fyrir heimilin í landinu ef hún rætist?


Stóru tölurnar í hagkerfinu geta haft mikil áhrif á fjárhag hvers og eins okkar. Greining Íslandsbanka birti nýlega nýja þjóðhagsspá, skýrslu þar sem spáð er fyrir um þróun þessara helstu stærða næstu þrjú árin.

Bjartara framundan

Niðurstöðurnar eru heilt yfir nokkuð góðar, en eins og nammipoki sem einhver annar fyllti leynast þó vondir molar inn á milli. Lítum á það helsta og hvaða áhrif það kann að hafa á fjárhag okkar ef spáin rætist.

Verðbólgan fer hjaðnandi

Hvaða máli skiptir verðbólgan? Verðbólga endurspeglar hvernig kostnaður við daglegt líf okkar er að þróast. Í mikilli verðbólgu verður dýrara að vera til og borga reikninga auk þess sem sparnaðurinn okkar getur rýrnað og launin dugað skemur en ella. Þess vegna veldur mikil verðbólga skaða í heimilisfjármálunum og við viljum hafa hana sem hóflegasta.

Spáin: Við spáum því að 12 mánaða verðbólgan (hækkun verðlags síðustu 12 mánuði) hafi náð toppi í 9,9% í janúar. Við teljum að nú fari að draga úr verðbólgunni og hún verði komin í rétt ríflega 6% undir lok árs. Þetta eru í sjálfu sér góðar fréttir en það virðist ætla að ganga ansi hægt að ná verðbólgunni niður og við erum aldeilis ekki hætt að finna fyrir áhrifum hennar, t.d. verðhækkunum úti í búð og hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána.

Vextir gætu hækkað enn meira

Hvaða máli skipta vextir? Vextir eru leiguverð á peningum. Þegar þeir hækka verður dýrara að taka lán og betra að spara. Hversu mikið dýrara og betra fer eftir því hver verðbólgan er á sama tíma og þegar vextirnir eru hærri en verðbólgan er talað um jákvæða raunvexti.

Spáin: Þar sem verr hefur gengið að ná niður verðbólgunni en vonir stóðu til um sýnist okkur að Seðlabankinn muni hækka stýrivextina sína enn meira núna fljótlega. Ef draga fer úr verðbólgunni, eins og okkur þykir ástæða til að ætla, ættu vextir þó að geta byrjað að lækka að nýju í kringum áramót. Áfram eru þó líkur á að þeir verði umtalsvert hærri en þeir voru þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Þetta þýðir að vænlegra verður að spara en oft áður og að sama skapi dýrara að taka lán. Húsnæðislán með breytilegum vöxtum verða því áfram dýrari en í faraldrinumsem og fastvaxtalán þegar binditíma lýkur. Þessir tiltölulega háu vextir eru skýr skilaboð um mikilvægi þess að forðast greiðsludreifingar og fleiri neyslulán og spara þess í stað fyrir útgjöldum.

Íbúðamarkaður í betra jafnvægi

Hvaða máli skiptir íbúðaverð? Miklar verðhækkanir á íbúðamarkaði eru stór þáttur í þeirri miklu verðbólgu sem við höfum séð upp á síðkastið. Þær gera okkur erfiðara um vik að komast inn á íbúðamarkaðinn og stækka við okkur en hafa að sama skapi aukið eignir þeirra sem eiga fasteignir og þeirra sem minnkað hafa við sig.

Spáin: Tímabili mikilla verðhækkana virðist lokið í bili. Undanfarna mánuði hefur hægt á markaðinum til muna og jafnvel orðið vart við verðlækkanir. Hvort verð muni lækka eitthvað, standa í stað eða hækka lítillega er erfitt að segja en við spáum því að raunverð íbúða (verð að frádreginni verðbólgu) standi svo gott sem í stað næstu tvö árin. Gangi þetta eftir verður íbúðaverð frekar til þess að draga úr verðbólgu á næstunni en knýja hana áfram eins og undanfarin misseri. Þetta eru góðar fréttir fyrir kaupendur á markaði og sömuleiðis okkur öll, því verðbólgan hefur með beinum eða óbeinum hætti áhrif þvert á samfélagið.

Hagkerfið okkar stendur vel

Hvaða máli skiptir staða hagkerfisins? Sterk staða hagkerfisins gefur okkur færi á að halda hér uppi góðum lífskjörum. Sterkt hagkerfi er forsenda fyrir góðum kaupmætti, fullri atvinnu, stöðugri krónu og öflugu velferðarkerfi svo eitthvað sé nefnt.

Spáin: Ólíkt mörgum löndum í kringum okkur er hagkerfið okkar að vaxa með fremur heilbrigðum hætti og sýnist okkur vöxturinn verða meiri í ár en við spáðum í síðustu þjóðhagsspá okkar í september. Stóran þátt í því á endurreisn ferðaþjónustunnar (það stefnir í metfjölda ferðalanga) og nokkuð almennt góð staða almennings. Við spáum því að krónan okkar muni styrkjast nokkuð og ætti kaupmáttur okkar í útlöndum því að styrkjast, þ.e. það gæti orðið ódýrara að ferðast og flytja inn vörur. Samhliða vexti hagkerfisins aukast verðmæti til skiptanna og ættum við öll að njóta þess. Þó við séum eyja erum við þó ekkert eyland í þessum skilningi. Afar viðkvæm staða í þeim löndum sem við verslum hvað helst við, svo sem í Bretlandi, getur haft nokkur áhrif á okkur, til dæmis með því að minnka svigrúm fólks til ferðalaga hingað til okkar dýra lands og aukin alþjóðleg verðbólga skilar sér beint í hillur verslana hér heima. Hagur okkar allra veltur því að nokkru leyti á því hversu vel eða illa efnahagsástandið í löndunum í kringum okkar þróast.

Eins og áður segir lítur þetta þokkalega út. Það er kannski ótímabært að rífa upp sólgleraugun en ef fram heldur sem horfir er bjart framundan í litla hagkerfinu okkar. Það má þó ekki gera lítið úr þeim hættum sem leynast á veginum. Það er alltaf hollt og gott að tryggja sig vel og gera ráð fyrir áföllum, ekki síst þegar við skipuleggjum heimilisfjármálin og óvissan framundan er óneitanlega mikil.

Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka má nálgast í heild sinni hér.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Hafa samband