Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hugmyndaverksmiðjan varð að veruleika

Stofnandi Sjávarklasans segir að hægt sé að þrefalda bláa hagkerfið á næstu 20 árum.


Þór Sigfússon dustaði rykið af gamalli hugmynd, sem hann hafði lagt til hliðar mörgum árum áður, og setti á fót hús Sjávarklasans í Faxaskála.

Þetta kemur fram viðtali við Þór í Reynslubankanum á vef Íslandsbanka, hvar stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja deila áskorunum í fyrirtækjarekstri og miðla af reynslu sinni.

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri og stofnandi Sjávarklasans, rifjar þar upp að hans fyrsti vinnustaður hafi verið í miðborginni á 10. áratug síðustu aldar, hvar hann hafði útsýni út á Faxaskála. Þar fékk hann þá hugmynd að stofna sjávarútvegs-tæknigarð í húsnæði í Faxaskóla. Að sögn Þórs var sú hugmynd lögð til hliðar, þar til mörgum árum síðar.

Íslenski sjávarklasinn var stofnaður árið 2011 með það að markmiðið að tengja saman fólk og fyrirtæki innan haftengdrar starfsemi og sækjast eftir nýjum tækifærum á mismunandi sviðum og svæðum. Hús sjávarklasans hýsir í dag yfir 50 fyrirtæki og frumkvöðla hafsækinni starfsemi. Þannig má nefna fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru.

„Við fengum mikið af ungu fólki til okkar og reyndar fólk á öllum aldri, sem sagði okkur frá því að það hefði áhuga á að þróa hugmyndir, tæknihugmyndir, matvælahugmyndir og fleira,“ segir Þór.

„Úr varð skemmtileg gerjum sem síðan hefur haldist. Við höfum alltaf litið á okkur sem hugmyndaverksmiðju. Við erum í raun stöðugt með hugmyndir sem þurfa að komast í framkvæmd. Þá höfum við oft tengt þær hugmyndir stórum fyrirtækjum sem hafa verið með okkur í að stofna fyrirtæki, eins og til að mynda Kollagen og Codland. Þá fengum við öflug fyrirtæki með okkur í það.“

Í Reynslubankanum segir Þór jafnframt frá því að við kynningu Sjávarklasans erlendis hafi hann fundið fyrir miklum áhuga á aðferðum og hugmyndum til að reyna að lífga við sjávarútveg í öðrum löndum.

„Við Íslendingar getum sýnt fram á að við erum að nýta fiskinn mun betur en allar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þessi skilaboð eru mjög sterk,“ segir Þór en Sjávarklasinn hefur nú opnað nokkra klasa í Bandaríkjunum.

„Ég trúi því að við getum á næstu 20 árum þrefaldað bláa hagkerfi okkar með því að hagnýta okkur þessar stofnanir sem eru, styrkja rannsóknarstofnanir, styrkja menntun á þessu sviði og með því að efla fólk til þess að koma inn í þennan geira og verða þátttakendur í honum. Bæði með því að vinna betur aflann og gera hann meira að líftæknivöru en nú er, og líka með því að færa okkur til útlanda með þá þekkingu sem við höfum á því sviði,“ segir Þór.

Reynslubankinn - Þór Sigfússon


Þór Sigfússon segir frá stofnun Sjávarklasans

Í Reynslubankanum deila stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja áskorunum í fyrirtækjarekstri og miðla af reynslu sinni.