Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hótelgeirinn heldur sjó þrátt fyrir fækkun ferðamanna

Gistinóttum á hótelum hefur fækkað mun minna en komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Á Norður- og Austurlandi hefur gistinóttum fjölgað í ár, sem endurspeglar kærkomna þróun í átt til jafnari dreifingar ferðamanna um landið.


Lengri meðaldvalartími erlendra ferðamanna hér á landi og tilfærsla á eftirspurn frá Airbnb og sambærilegri gistingu í átt til hótela eru meðal helstu orsaka þess að gistinóttum á hótelum hefur fækkað mun minna en komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Á Norður- og Austurlandi hefur gistinóttum fjölgað í ár, sem endurspeglar kærkomna þróun í átt til jafnari dreifingar ferðamanna um landið. Þrátt fyrir talsverða fjölgun hótelrýma er nýtingarhlutfall íslenskra hótela enn vel ásættanlegt í alþjóðlegu tilliti.

Hagstofan birti nýverið tölur um fjölda gistinátta á íslenskum gististöðum til og með september sl. Heildarfjöldi greiddra gistinótta skrapp saman í septembermánuði um 3,3% frá sama mánuði fyrir ári. Mestur var samdrátturinn í gistinóttum sem miðlað var um Airbnb og svipaðar síður (5,8%) en á hótelum og gistiheimilum fækkaði gistinóttum um 2,5% á milli ára.

Airbnb-gistingum hríðfækkar

Það sem af er ári hefur gistinóttum á hótelum fækkað um tæplega 2% en áætluðum gistinóttum í gegn um Airbnb og svipaðar vefsíður hefur hins vegar fækkað um nærri 10%. Virðist því sem hlutfallslega stór hluti fækkunar ferðamanna endurspeglist í minni Airbnb-gistingu. Ástæður þessa eru væntanlega bæði breytt samsetning ferðamanna, þar sem þeim ferðamönnum sem eru sparastir á ferðakostnað hefur fækkað meira en hinum, en einnig hertur reglurammi og meiri eftirfylgni við reglur um Airbnb gistingu.

Áhugavert er einnig að bera yfirstandandi ár saman við árið 2017, en miðað við það ár voru gistinætur á hótelum nærri 3% fleiri en áætlaðar gistinætur í Airbnb og slíkri gistingu nærri 15% færri. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd liggur þessi fjölgun gistinótta á hótelum frá í hitteðfyrra að stærstum hluta í fleiri gistinóttum á tímabilinu júlí-september.

Enn vöxtur fyrir norðan og austan

Þróun gistinótta á hótelum er nokkuð mismunandi eftir landssvæðum. Á fyrstu níu mánuðum ársins fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu til að mynda um nærri 5% frá síðasta ári og var samdrátturinn þar hlutfallslega töluvert meiri en á landsbyggðinni. Einnig varð lítilsháttar samdráttur í gistinóttum á Suðurlandi sem og Vesturlandi og Vestfjörðum. Annars staðar á landinu fjölgaði gistinóttum hins vegar á milli ára og var fjölgunin hlutfallslega mest á Austurlandi, eða ríflega 11% á milli ára. Á Norðurlandi mældist tæplega 7% fjölgun á milli ára og á Suðurnesjunum var fjölgunin tæp 2%. Rétt er að halda til haga að gistinætur á Austurlandi voru einungis 3% af heildarfjölda gistinótta á tímabilinu og á Norðurlandi var hlutfallið 8%. Það hlýtur þó að teljast fagnaðarefni að framangreind landssvæði haldi sínu striki hvað þetta varðar, enda mikilvægt að ferðamannastraumurinn dreifist jafnar um landið en verið hefur undanfarin ár. Kann að vera að lengri meðaldvalartími erlendra ferðamanna hér á landi hafi haldist í hendur við aukið svigrúm þeirra til að leggja land undir fót.

Herbergjanýting ásættanleg þrátt fyrir fjölgun hótelrýma

Talsvert hefur verið fjallað um öra uppbyggingu hótelrýma og hvort hætta sé á offramboði hótelgistingar á komandi misserum. Er til að mynda bent á þetta sem áhættuþátt í nýlega birtum Fjármálastöðugleika Seðlabankans. Enn sem komið er virðist þó nýting íslenskra hótela vera vel ásættanleg. Þannig var herbergjanýting í hérlendum hótelum 74% í september sl., sem er lækkun um ríflega 4 prósentustig frá sama mánuði í fyrra. Framboð gistirýmis hefur hins vegar aukist um ríflega 6% á sama tíma. Frá áramótum nemur hótelnýtingin að jafnaði 66% samanborið við ríflega 70% á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Í alþjóðlegum samanburði þykir 66% nýting allmyndarleg þótt á móti megi benda á að hár launakostnaður setur þrýsting á að ná betri nýtingu hérlendis en gengur og gerist víða erlendis.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband