Lengri meðaldvalartími erlendra ferðamanna hér á landi og tilfærsla á eftirspurn frá Airbnb og sambærilegri gistingu í átt til hótela eru meðal helstu orsaka þess að gistinóttum á hótelum hefur fækkað mun minna en komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Á Norður- og Austurlandi hefur gistinóttum fjölgað í ár, sem endurspeglar kærkomna þróun í átt til jafnari dreifingar ferðamanna um landið. Þrátt fyrir talsverða fjölgun hótelrýma er nýtingarhlutfall íslenskra hótela enn vel ásættanlegt í alþjóðlegu tilliti.
Hagstofan birti nýverið tölur um fjölda gistinátta á íslenskum gististöðum til og með september sl. Heildarfjöldi greiddra gistinótta skrapp saman í septembermánuði um 3,3% frá sama mánuði fyrir ári. Mestur var samdrátturinn í gistinóttum sem miðlað var um Airbnb og svipaðar síður (5,8%) en á hótelum og gistiheimilum fækkaði gistinóttum um 2,5% á milli ára.