Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Horfur dökkna að mati heimila og fyrirtækja

Nýlegar væntingakannanir bera með sér að verulega hefur dregið úr bjartsýni bæði heimila og fyrirtækja á efnahagshorfur. Vaxandi verðbólga, rýrnandi kaupmáttur og óvissa á alþjóðavísu eru meðal helstu áhrifaþátta. Útlit er fyrir að hægja muni verulega á vexti einkaneyslu og fjárfestingar á komandi fjórðungum en útflutningur tekur við keflinu af innlendri eftirspurn sem helsti aflvaki hagvaxtar.


Samkvæmt nýlega birtri Væntingavísitölu Gallup (VVG) þyngdist brún íslenskra neytenda talsvert í júlímánuði. Gildi vísitölunnar var 80,6 í mánuðinum og hefur VVG ekki mælst lægri frá nóvember 2020 þegar komið var á daginn að Covid-faraldurinn yrði talsvert þrálátari en vonir höfðu staðið til fyrr á árinu. Bjartsýni almennings náði hámarki í fyrrahaust ef marka má VVG en síðan hefur vísitalan lækkað jafnt og þétt með vaxandi verðbólgu og vályndari tíð á alþjóðavísu. VVG fór undir 100 stiga jafnvægisgildið milli bjartsýni og svartsýni í maí síðastliðnum.

Ýmsar skýringar má tína til fyrir lækkandi væntingum íslenskra heimila undanfarna fjórðunga. Faraldurinn gerði landsmönnum talsverða skráveifu fram eftir síðasta vetri, stríðið í Úkraínu hefur valdið aukinni óvissu á alþjóðavísu og þrýst upp verðlagi á heimsvísu, Seðlabankinn hefur brugðist við versnandi verðbólguhorfum með hraðri hækkun stýrivaxta og loks má nefna yfirvofandi óvissu vegna komandi kjarasamninga undir lok ársins.

Það fer þó ekki hjá því að athygli okkar beinist einna helst að verðbólgunni og áhrifum hennar sem helsta sökudólgnum hér. Á Íslandi sem annars staðar leggst mikil verðbólga illa í almenning, sem sér verð á nauðsynjavörum jafnt sem öðrum neysluvörum og þjónustu hækka jafnt og þétt á sama tíma og launahækkun ársins er um garð gengin hjá þorra landsmanna og því væntanlega ekki úr hærri tekjum að moða á móti, að minnsta kosti allra næsta kastið.

Eins og sjá má af myndinni hefur verið talsverð fylgni milli þróunar kaupmáttar og væntingavísitölunnar. Fyrrnefnda stærðin ræðst svo að talsverðu leyti af verðbólguþróun, sér í lagi ef skarpar og ófyrirséðar breytingar verða á verðbólgunni innan gildistíma almennra kjarasamninga.

Svartsýni hér, svartsýni þar...

Vaxandi svartsýni almennings er heldur ekki bundin við Ísland. Sjá má svipaða þróun víðast hvar í nágrannalöndunum. Í mörgum þeirra verða áhrif vaxandi verðbólgu á væntingar jafnvel talsvert meiri en hér og má benda á tvær ástæður þess:

  • Talsverður hluti verðbólgunnar erlendis endurspeglar mikla hækkun á orkuverði til heimilisnota sem er góðu heilli ekki staðan hér á landi.
  • Verðbólguþróunin víðast hvar erlendis er almenningi mun meira framandi en hér á landi. Við þurfum þó ekki að leita lengra en til loka fyrsta áratugar aldarinnar til að sjá talsvert hærri verðbólgutölur en nú á meðan í nágrannalöndum er stór hluti almennings að upplifa verulega verðbólgu í fyrsta sinn á ævinni eftir margra áratuga skeið lítillar verðbólgu.

Horfur á hægari eftirspurnarvexti á seinni árshelmingi

Væntingavísitalan er einn þeirra hagvísa sem við lítum hvað helst til fyrir komandi fjórðunga í þróun einkaneyslu enda halda svartsýn heimili frekar að sér höndum í neysluútgjöldum á meðan eyðslugleðin eykst þegar brún neytenda léttist.

Nýleg þróun væntingavísitölu og kaupmáttar launa bendir til þess að heimilin séu líkleg til þess að halda í vaxandi mæli að sér höndum í einkaneyslu eftir því sem lengra líður á árið. Þrátt fyrir að engin merki séu um minnkandi neysluvilja eða -getu í kortaveltutölum á fyrri árshelmingi þykir okkur líklegt að talsvert muni draga úr vexti einkaneyslu á komandi fjórðungum og jafnvel er ekki útilokað að hún dragist eitthvað saman á lokafjórðungi ársins þegar rýrnandi kaupmáttur launa verður farinn að segja meira til sín í heimilisbókhaldinu.

Vaxandi svartsýni er heldur ekki bundin við heimilin hér á landi. Eftir ört vaxandi bjartsýni framan af seinasta ári hefur mat stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í atvinnu- og efnahagslífinu lækkað talsvert á nýjan leik. Ennþá hefur þó bjartsýnin vinninginn í svörum stjórnendanna ef marka má nýjustu mælingu Gallup fyrir Seðlabankann og SA sem birt var í Hagvísum Seðlabankans í júnílok.

Væntingar stjórnenda fyrirtækja hafa allnokkra fylgni við takt atvinnuvegafjárfestingar enda fara fyrirtækin sér gætilegar í nýjum fjárfestingum þegar horfurnar eru tvísýnar. Fjárfesting atvinnuvega hefur verið á mikilli siglingu undanfarið eftir dýfu á fyrsta faraldursárinu 2020. Slík fjárfesting óx um ríflega 23% í fyrra að raungildi. Á fyrsta fjórðungi þessa árs var vöxturinn 38% á heildina litið en rúm 19% ef horft er fram hjá fjárfestingu í skipum, flugvélum og stóriðjutengdri starfsemi. Ef tekið er mið af þróun væntinga fyrirtækjastjórnenda ásamt áhrifaþáttum á borð við vaxandi fjármagnskostnað og óvissari efnahagshorfur á heimsvísu er nærtækt að áætla að talsvert muni draga úr fjárfestingu atvinnuvega þegar lengra líður á árið.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í maí síðastliðnum spáðum við því að hagvöxtur myndi reynast 5% í ár en 2,7% á næsta ári. Áætluðum við að útflutningur, ekki síst þjónustuútflutningur tengdur ferðaþjónustu, myndi í vaxandi taka við af einkaneyslu og fjárfestingu sem helsti drifkraftur hagvaxtar þegar lengra liði á árið og sömuleiðis drífa hagvöxtinn að miklu leyti næsta ár. Ekki verður annað séð en þessi skoðun sé enn í fullu gildi eftir þróun síðustu mánaða en vissulega eru vaxtarhorfurnar fyrir næstu misserin orðin heldur tvísýnni en þær virtust í vor.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband