Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Höfum varann á í netsamskiptum í sumar

Varað er við tilraunum til vefveiða


Netþrjótar finna sér sífellt nýjar leiðir til vefveiða, SMSveiða, símasvika og annarrar svikastarfsemi. Gott er að hafa sem reglu að allur sé varinn góður á netinu og ganga úr skugga um að samskipti séu raunverulega við þann aðila sem við teljum að um sé að ræða. 

Þegar skilaboð berast skulum við taka okkur andartak og hugsa málin.

  • Ekki samþykkja innskráningu með rafrænum skilríkjum nema þú hafir ætlað að skrá þig inn.
  • Ekki hleypa neinum inn á netbankann þinn.
  • Ekki láta glepjast af gylliboðum.
  • Ekki senda ljósmynd af vegabréfinu þínu.
  • Ekki hleypa ókunnugum inn á tölvuna eða símann þinn með forritum eins og AnyDesk og TeamViewer. Bankar og kauphallir taka ekki yfir tölvubúnaðinn þinn.
  • Hafðu virka tveggja þátta auðkenningu til þess að vernda aðganginn þinn ef einhver kemst yfir aðgangsorðið þitt.
  • Ef það er of gott til að vera satt þá er það of gott til þess að vera satt.

Dæmi um svikamál sem borið hefur á að undanförnu eru samskipti á Messenger þar sem fólk villir á sér heimildir, þykist vera vinafólk og óskar eftir millifærslu og jafnvel stofnun reikninga. Þá eru dæmi þess að þrjótar óski eftir að fá að yfirtaka tölvu viðkomandi, að því er virðist til að aðstoða. Sömuleiðis hefur borið á Facebook leikjum sem krefjast ákveðins framlags svo afhenda megi vinninga. Hringt er í fólk og því boðið að kaupa bréf í erlendum kauphöllum, rafmyntum og fleira. 

Kynntu þér nánari upplýsingar um netöryggi á vef Íslandsbanka.