Hófleg lækkun stýrivaxta í samræmi við væntingar

Lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur var í samræmi við væntingar greinenda og markaðsaðila. Hjöðnun verðbólgu, hægari umsvif á húsnæðismarkaði og útlit fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu næstu mánuði vógu til lækkunar vaxta en vísbendingar um aukin neysluútgjöld heimila, hækkun launakostnaðar og verðbólguvæntingar yfir markmiði vógu á móti. Seðlabankinn vill halda raunvaxtastiginu tiltölulega háu næsta kastið og útlit fyrir annað lítið skref til lækkunar í maí og 6,5% stýrivexti í lok árs.


Stýrivextir Seðlabankans lækka um 0,25 prósentur eftir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt var í morgun. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 7,75% og hafa vextirnir ekki verið lægri í tæp 2 ár.

Samstaða var meðal meðlima nefndarinnar um ákvörðunina líkt og í febrúar. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár, þar á meðal okkar spá, og sömuleiðis í takti við svör flestra í nýlegum væntingakönnunum Innherja og Viðskiptablaðsins meðal sérfræðinga á fjármálamarkaði.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Verðbólga var 4,2% í febrúar og hefur ekki verið minni í fjögur ár.
  • Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur því einnig minnkað.
  • Útlit er fyrir að áfram dragi úr verðbólgu á næstu mánuðum.
  • Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun.
  • Að sama skapi hefur dregið úr umsvifum á húsnæðismarkaði.
  • Hátíðnivísbendingar gætu þó bent til þess að neysluútgjöld heimila hafi aukist á ný.
  • Þá mælist enn mikil hækkun launakostnaðar og verðbólguvæntingar eru áfram yfir markmiði.

Merki um talsverða seiglu í hagkerfinu þrátt fyrir háa vexti

Á kynningarfundi stjórnenda Seðlabankans eftir vaxtaákvörðunina kom meðal annars fram að jákvætt væri að sjá verðbólgu án húsnæðisliðar í grennd við verðbólgumarkmið Seðlabankans undanfarið. Hins vegar þyrftu helst að koma fram skýrari merki um kólnun á íbúðamarkaði á komandi mánuðum. Þrálátt háar verðbólguvæntingar væru vissulega áhyggjuefni en vonir stæðu til að með frekari hjöðnun verðbólgu á komandi mánuðum myndu verðbólguvæntingar lækka í kjölfarið.

Þá bentu stjórnendur bankans á að talsverð seigla væri í hagkerfinu þrátt fyrir allmikið peningalegt aðhald. Efnahagshorfur hefðu í stórum dráttum ekki breyst mikið frá síðustu Peningamálum í febrúarbyrjun þar sem Seðlabankinn birti sína nýjustu hagspá. Raunvextir væru enn að miðlast í gegnum hagkerfið og skýr áhrif á efnahagsumsvif væru að koma fram. Ekki væru þó merki um aukin skuldavandræði eða gjaldþrot að neinu marki og ekki væri von á harðri lendingu hagkerfisins að öðru óbreyttu. Það væri í sjálfu sér jákvætt en takmarkaði svigrúm til lækkunar vaxtaaðhaldsins á næstunni.

Nýlegar birtingar neyslutengdra hagvísa gætu bent til þess að neysluútgjöld heimilanna hafi aukist á ný. Þar er meðal annars átt við að kortaveltutölur hafa verið í stöðugum vexti en tenging við einkaneyslu ekki verið eins sterk, ekki síst vegna mikils samdráttar í kaupum á bílum, líkt og við fjölluðum nýlega um. Bílakaupin væru hins vegar að taka við sér á nýjan leik á sama tíma og væntingakannanir bentu til vaxandi bjartsýni almennings á efnahags- og atvinnuhorfur. Von væri á að einkaneysla taki við sér á næstunni en óvíst hve mikið.

Aðspurðir töldu þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri peningastefnu að þótt áhrifin af mögulegu tollastríði á hagvöxt yrðu væntanlega neikvæð ríkti meiri óvissa um áhrifin á verðbólgu þar sem gætu togast á mótbyr í útflutningi og hægari eftirspurnarvöxtur annars vegar, en hins vegar kostnaðarhækkanir erlendis frá og veikari króna.

Hægfara vaxtalækkunarferli framundan

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er að þessu sinni nánast samhljóða leiðsögninni í febrúar og hljóðar svo:

Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í febrúar svohljóðandi:

Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað er enn verðbólguþrýstingur til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Við túlkum leiðsögnina ásamt þeim tón sem sleginn var á kynningarfundinum þannig að peningastefnunefndin vilji áfram stíga varlega til jarðar á meðan ekki eru ótvíræðari merki um slaka í hagkerfinu og verðbólguvæntingar eru enn jafn háar og raun ber vitni. "Þétt taumhald peningastefnunnar" þýðir trúlega raunstýrivexti í grennd við 4% á næstunni.

Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,25 prósentu stýrivaxtalækkun í maí og 1 prósentu vaxtalækkun til viðbótar samanlagt á seinni helmingi ársins. Verði verðbólga þrálátari en við spáum og verðbólguvæntingar lækka ekki að ráði gæti lækkun vaxta orðið hægari en að sama skapi myndu sterkari merki um kólnun hagkerfisins og hagfelld þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga herða á ferlinu.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband