Hægfara vaxtalækkunarferli framundan
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er að þessu sinni nánast samhljóða leiðsögninni í febrúar og hljóðar svo:
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í febrúar svohljóðandi:
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað er enn verðbólguþrýstingur til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Við túlkum leiðsögnina ásamt þeim tón sem sleginn var á kynningarfundinum þannig að peningastefnunefndin vilji áfram stíga varlega til jarðar á meðan ekki eru ótvíræðari merki um slaka í hagkerfinu og verðbólguvæntingar eru enn jafn háar og raun ber vitni. "Þétt taumhald peningastefnunnar" þýðir trúlega raunstýrivexti í grennd við 4% á næstunni.
Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,25 prósentu stýrivaxtalækkun í maí og 1 prósentu vaxtalækkun til viðbótar samanlagt á seinni helmingi ársins. Verði verðbólga þrálátari en við spáum og verðbólguvæntingar lækka ekki að ráði gæti lækkun vaxta orðið hægari en að sama skapi myndu sterkari merki um kólnun hagkerfisins og hagfelld þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga herða á ferlinu.