Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hlutfjárútboð og skráning Íslandsbanka á markað valin viðskipti ársins

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að útboðið og skráningin hafi tekist einstaklega vel.


Hlutafjárútboð og skráning Íslandsbanka á markað voru valin viðskipti ársins á verðlaunahátíð Innherja sem fram fór miðvikudaginn 15. desember. Innherji er nýr viðskiptavefur Vísis.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, tók við verðlaununum ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Sem kunnugt er seldi íslenska ríkið 35% hlut sinn í Íslandsbanka í gegnum almennt hlutafjárútboð sem fram fór í júní 2021 og fékk þar um 55 milljarða króna í sinn hlut. Að því loknu var bankinn skráður í Kauphöll Íslands.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að útboðið og skráningin hafi tekist einstaklega vel þrátt fyrir úrtöluraddir í aðdraganda útboðsins.

„Vandað var til verka á öllum stigum í þessu stærsta frumútboði sem hefur nokkurn tíma farið fram hér á landi,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Þar kemur einnig fram að jákvæð þróun á gengi hlutabréfa Íslandsbanka eftir skráningu geri virði hlutar ríkissjóðs jafn mikinn og allur eignarhluturinn var fyrir útboð, sem hefur því bætt til muna skuldahorfur ríkisins til næstu ára. 

„Sú ákvörðun að gefa almenningi kost á nokkurs konar forgangi í hlutafjárútboðinu skilaði sér í því að Íslandsbanki er í dag með fjölmennasta hluthafahóp allra skráðra félaga í Kauphöllinni. Salan var því ekki aðeins mikilvæg í átt að því markmiði að minnka áhættu ríkissjóðs af bankarekstri, samtímis því að hámarka endurheimtur hlutar síns, heldur einnig stórt skref í að endurreisa traust almennings á hlutabréfamörkuðum eftir fjármálaáfallið,“ segir einnig í rökstuðningi dómnefndar.

„Viðskipti ársins að mati dómnefndar Innherja er því einkavæðing Íslandsbanka. Verkefnið reyndist skólabókardæmi um vel heppnaða framkvæmd, sem kallaði á pólitíska forystu og framsýni, þar sem seljandinn náði öllum sínum markmiðum.“