Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,09% á milli mánaða í nóvember og 12 mánaða verðbólga lækkaði fyrir vikið úr 5,1% í 4,8%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis lækkar einnig úr 2,8% í 2,7% og er því nánast komin niður í verðbólgumarkmið. Mæling nóvembermánaðar er yfir okkar spá en við spáðum 0,1% lækkun VNV. Spár voru á fremur þröngu bili eða frá um 0,13% lækkun að 0,12% hækkun.
Hjöðnun ársverðbólgu í nóvember
12 mánaða verðbólga hjaðnaði í nóvember, þó minna en við höfðum spáð. Húsnæðisliður vó þyngst til hækkunar en lægri flugfargjöld til lækkunar. Þónokkrir aðrir undirliðir lækkuðu á milli mánaða og bera þess merki að verðbólguþrýstingur sé ekki á eins breiðum grunni og fyrir nokkrum mánuðum síðan. Síðast mældist ársverðbólga lægri í október 2021.
Óvænt hækkun húsnæðisliðar
Frá því ný aðferð Hagstofu við að meta kostnað við búsetu í eigin húsnæði (reiknaða húsaleigu) var tekin í notkun í sumar hefur ekki mælst lækkun í liðnum. Því ríkti nokkur óvissa um það hvort spá okkar um lækkun í nóvember yrði að veruleika þótt flestar vísbendingar bentu að okkar mati til þess. Raunin varð sú að reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% (0,17% áhrif á VNV) sem er talsvert meira en flestir áttu von á og mun meira en sú 0,2% lækkun sem við spáðum. Greidd húsaleiga hækkaði einnig um 1,87% (0,07% áhrif á VNV) og í heild sinni hækkaði húsnæðisliðurinn því um 0,9% (0,27% áhrif á VNV). Mælingar með nýju aðferðinni hafa þó ekki rofið 1% múrinn og hafa á heildina litið reynst hagfelldari en ef gamla aðferðin væri enn í notkun að okkar mati. Næstu misserin eigum við von á því að hækkanir reiknaðrar húsaleigu verði fremur takmarkaðar og útilokum ekki einstaka lækkanir.
Þrátt fyrir að hækkun á reiknaðri húsaleigu hafi verið umfram það sem spáð var átti hún engu að síður stærstan þátt í hjöðnun ársverðbólgu í nóvember. Skýringin felst í því að reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,08% í nóvember á síðasta ári og hafði því 0,4% áhrif til hækkunar VNV í mánuðinum. Sá mánuður dettur nú út úr 12 mánaða mælingu verðbólgunnar og þrátt fyrir að mæling þessa mánaðar hafi ekki verið sérstaklega hagfelld skilar hún engu að síður mestu framlagi til hjöðnunar ársverðbólgu.
Lægri flugfargjöld vógu þyngst til lækkunar en aðrir liðir lögðust einnig á vogarskálarnar
Árviss lækkun flugfargjalda vó þyngst til lækkunar í nóvember þar sem flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 11,7% (-0,23% áhrif á VNV). Það var nokkru meiri lækkun en okkar mælingar gáfu til kynna en áþekk þeim sem hafa sést undanfarin þrjú ár. Við eigum svo von á því að flugfargjöld hækki á ný í desember og lækkun nóvembermánaðar gangi þar að mestu til baka líkt og venjan er. Einnig lækkaði annar undirliður ferða og flutninga, bensín og olíur, um 0,98% (-0,03% áhrif á VNV).
Ýmsir aðrir undirliðir VNV lækkuðu einnig í nóvember en þar ber helst að nefna matar- og drykkjarvöru, föt, húsgögn og heimilisbúnað. Matur og drykkur lækkaði um 0,04% í verði (-0,01% áhrif á VNV) en þar skýrir 2,54% verðlækkun ávaxta (-0,03% áhrif á VNV) stærstan hluta en þeir höfðu hækkað umtalsvert í október og því hluti þeirrar hækkunar að ganga til baka nú í nóvember.
Óhefðbundin útsöluáhrif gerðu einnig vart við sig í mánuðinum en dagur einhleypra (e. singles day) lenti þetta árið í verðmælingarviku Hagstofu. Við höfðum spáð nokkuð hóflegum verðlækkunum á fötum og skóm ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði. Reyndist verðlækkunin heldur hóflegri en við höfðum áætlað og föt og skór lækkuðu um 0,27% í verði (-0,01% áhrif á VNV) en húsgögn og heimilisbúnaður 0,06%. Heildaráhrif til lækkunar vísitölu reyndust því sáralítil.
Nærhorfurnar
Við erum nokkuð bjartsýn á verbólguhorfur næstu mánuði og reiknum með því að verðbólga fari inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í febrúar á næsta ári. Þó hækkun á reiknaðri húsaleigu komi okkur á óvart eigum við síður von á því að hún sé að fara á flug. Næstu mánuði eigum við von á því að hækkanir undirliðarins verði takmarkaðar og útilokum ekki einstaka lækkanir.
Krónan hefur verið í styrkingarham nýverið og sú þróun gæti að okkar mati valdið því að verðþróun innfluttra vara á næstunni verði fremur hagfelld. Útlit er fyrir að árstaktur verðbólgu breytist lítið þangað til í febrúar en við reiknum með eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:
- Desember: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)
- Janúar: 0,2% lækkun VNV (ársverðbólga 4,7%)
- Febrúar: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 3,8%)
Óvissuþættirnir eru sem fyrr nokkrir. Til þess að spáin gangi eftir þurfa áhrif af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum, sem hvort tveggja kann að breyta myndinni nokkuð á komandi mánuðum, að vera takmörkuð. Aðrir óvissuþættir eru einnig nokkrir, um þessar mundir er það helst óvissa um kjarasamninga fyrir þann hluta opinbera vinnumarkaðar sem enn á eftir að skrifa undir.