Afkoma á fjórða ársfjórðungi 2023 og á árinu 2023

Hagnaður af rekstri nam 6,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2023 (4F22: 6,0 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 11,2% á ársgrundvelli (4F22: 11,1%). Þetta er í samræmi við uppfærða afkomuspá bankans fyrir árið 2023, sem gerir ráð fyrir að arðsemi væri á bilinu 10,7-11,7% og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að arðsemi eigin fjár sé yfir 10%


Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu fjórða ársfjórðungs 2023 (4F23)
Hagnaður af rekstri nam 6,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2023 (4F22: 6,0 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 11,2% á ársgrundvelli (4F22: 11,1%). Þetta er í samræmi við uppfærða afkomuspá bankans fyrir árið 2023, sem gerir ráð fyrir að arðsemi væri á bilinu 10,7-11,7% og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að arðsemi eigin fjár sé yfir 10%.

 • Hreinar vaxtatekjur námu 11,7 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2023 og drógust saman um 5% samanborið við 12,3 milljarða króna á 4F22.
 • Vaxtamunur var 2,9% á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 3,1% á sama ársfjórðungi 2022.
 • Hreinar þóknanatekjur lækkuðu um 6,6% samanborið við fjórða ársfjórðung 2022 og námu samtals 3,8 milljörðum króna á fjórðungnum.
 • Hreinar fjármagnstekjur námu 455 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 899 milljónir króna á 4F22.
 • Stjórnunarkostnaður nam 7 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 6,5 milljarða króna á 4F22, sem er 6,9% hækkun milli ára. Fjárhæðin fyrir 4F22 er undanskilin stjórnvaldssekt að fjárhæð 300 milljónir sem gjaldfærð var á fjórða ársfjórðungi 2022.
 • Kostnaðarhlutfall bankans var 42,7% á fjórðungnum, sem er í samræmi við afkomuspá bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og vel undir fjárhagslegu markmiði um að kostnaðarhlutfall sé lægra en 45%. Kostnaðarhlutfallið var 40,6% á 4F22.
 • Virðisrýrnun nam 1.002 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, 2023 samanborið við virðisrýrnun um 647 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2022. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var 0,33 prósentustig á ársgrundvelli á fjórða ársfjórðungi samanborið við 0,22 prósentustig á sama ársfjórðungi 2022.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 12,9 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 1,1% frá þriðja fjórðungi og voru 1.223 milljarðar króna í lok fjórða ársfjórðungs 2023.
 • Innlán frá viðskiptavinum drógust saman um 13,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi frá þriðja ársfjórðungi, eða um 1,6%. Innlán frá viðskiptavinum námu 851 milljarði króna í lok fjórðungsins.
 • Eigið fé nam 224,7 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins, samanborið við 218,9 milljarða króna í lok árs 2022.
 • Eiginfjárhlutfall var 25,3% í lok fjórða ársfjórðungs 2023, samanborið við 22,2% í árslok 2022. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 21,4%, samanborið við 18,8% í árslok 2022, sem er 620 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila.

Helstu atriðin í afkomu ársins 2023

 • Hagnaður af rekstri á árinu 2023 nam 24,6 milljörðum króna (2022: 24,5 milljarðar króna), og arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli, samanborið við 11,8% fyrir árið 2022.
 • Hreinar vaxtatekjur námu 48,6 milljörðum króna á árinu, sem er aukning um 12,7% samanborið við fyrra ár. Vaxtamunur á árinu 2023 var 3,0%, en var 2,9% árið áður.
 • Hreinar þóknanatekjur jukust um 1,3% á milli ára, og námu 14,2 milljörðum króna á árinu, samanborið við 14,1 milljarð króna fyrir árið 2022.
 • Hreinar fjármagnstekjur voru 241 milljón króna á árinu 2023, samanborið við fjármagnsgjöld að fjárhæð 1.257 milljónir króna árið 2022.
 • Stjórnunarkostnaður á árinu 2023 nam 26,7 milljörðum króna, ef frá er talin 860 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi. Samanborið við 2022 þegar stjórnunarkostnaðurinn var 23,6 milljarðar króna, þegar frá er talin stjórnvaldssekt að fjárhæð 300 milljónir króna, sem gjaldfærð var á fjórða ársfjórðungi 2022.
 • Kostnaðarhlutfall fyrir árið 2023 var 41,6%, hið sama og það var fyrir árið 2022.
 • Innlán frá viðskiptavinum jukust milli ára um 7,7%, úr 790 milljörðum króna í lok árs 2022 í 851 milljarð króna í lok árs 2023.
 • Virðisrýrnun á fjáreignum nam 1.015 milljónum króna árið 2023 en var jákvæð um 1.576 milljónir króna árið 2022.

  Bestun efnahagsreiknings, arðgreiðslur og útgreiðsla á umfram eigin fé
 • Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,3 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans í mars. Það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.
 • Samhliða birtingu ársuppgjörs fyrir árið 2022 í febrúar 2023 kynnti Íslandsbanki áform sín um að hefja 5 milljarða króna endurkaup á eigin bréfum. Árið 2023 keypti bankinn samtals 20.390.831 eigin hluti, sem samsvarar 1,02% af útgefnu hlutafé á grundvelli endurkaupaáætlunar sinnar. Heildarfjárhæð sem varið var til endurkaupa á árinu nam alls 2,3 milljörðum króna.
 • Bankinn heldur áfram að kanna leiðir til að ná fram bestun á eiginfjársamsetningu sinni. Útgreiðsla á allt að 10 milljörðum króna af umfram eigin fé almenns þáttar 1 (CET1), með endurkaupum á eigin bréfum, mun halda áfram á árinu 2024, að því gefnu að aðalfundur samþykki tillögu þess efnis á aðalfundi bankans. Frekari bestun á samsetningu eiginfjár er áætluð fyrir lok árs 2025, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.

Síðasti ársfjórðungur ársins 2023 var góður í rekstri Íslandsbanka og lauk þar með viðburðaríku og annasömu ári. Hagnaður fjórða ársfjórðungs nam 6,2 milljörðum króna og nam hagnaður ársins 2023 samtals 24,6 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár var 11,3% á árinu 2023 og 11,2% á síðasta fjórðungi ársins, sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og í línu við spár greinenda. Tekjur bankans á árinu hækkuðu um rúm 12% frá fyrra ári, og munar þar mestu um aukningu á vaxtatekjum. Kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild var 41,6% en markmið bankans er að hlutfallið sé lægra en 45%. Borið saman við árslokatölur 2022 jukust útlán um 3,1% á ársgrundvelli sem er hægari vöxtur en árið á undan og hefur hátt vaxtastig þar klárlega áhrif. Gæði lánasafnsins eru góð og sjáum við litla aukningu í vanskilum. Aukning í innlánum frá viðskiptavinum um tæp 8% á árinu styrkti enn frekar megin fjármögnunarstoð bankans.
Það er ánægjulegt að sjá þann góða árangur sem náðist innan allra viðskiptaeininga bankans. Mikil velta var í gjaldeyrismiðlun og undir árslok mátti loks sjá merki um jákvæðan viðsnúning á verðbréfamörkuðum, bæði hér á landi sem og erlendis. Fyrirtækjaráðgjöfin tók þátt í mörgum vel heppnuðum verkefnum, þar á meðal skráningu Ísfélags hf. á aðalmarkað Nasdaq Iceland undir lok árs. Árið einkenndist af góðum vexti í útlánum hjá Viðskiptabankanum, þar með talið hjá Ergo. Þá skila áherslur á þróun stafræns vöruframboðs sér í fjölbreyttum vörum og auknum möguleikum á persónubundinni þjónustu við viðskiptavini okkar. Sjálfbærni skipar áfram veigamikinn sess í daglegum verkefnum bankans og hafa verið sett metnaðarfull markmið á sviði sjálfbærni til ársins 2025 eins og sjá má í Árs- og sjálfbærniskýrslu bankans fyrir árið 2023 sem aðgengileg er á vef bankans.
Erlendum útgáfum bankans var vel tekið og þegar líða tók á árið má segja að markaðir erlendis hafi færst nær eðlilegu horfi eftir krefjandi tíma undanfarna 18 mánuði. Alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin S&P Global Ratings (S&P) og Moody's hafa einnig verið jákvæð í garð bankans, sér í lagi þegar Moody's veitti bankanum einkunnina A3 í ágúst. Bæði fyrirtæki vísa í afstöðu sinni meðal annars til sterkrar eiginfjárstöðu og góðrar og stöðugrar arðsemi.
Nýju ári fylgja í senn bæði tækifæri og áskoranir. Við erum minnt á þann ógnarkraft sem býr í náttúrunni hér á landi og líkt og þjóðin öll stöndum við með Grindvíkingum vegna yfirstandandi jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesi.
Horfur í rekstri bankans eru jákvæðar og stoðir hans styrkar. Íslandsbanki er vel undir það búinn að takast á við þau verkefni sem að höndum ber með viðskiptavinum okkar og öðrum samstarfsaðilum.

Jón Guðni Ómarsson
Bankastjóri Íslandsbanka

Fjárfestaefni
Allt fjárfestaefni mun verða birt á vefsvæði fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.
Sé misræmi á milli tilkynninga á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, gildir enska útgáfan.

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.